Vilborg og Ingólfur heil á húfi

Vilborg Arna dvelur nú í grunnbúðum Everest.
Vilborg Arna dvelur nú í grunnbúðum Everest. Ljósmynd/Vilborg Arna

Vilborg Arna Gissurardóttir hefur látið vita af sér og er hún heil á húfi, en minnst 12 eru látnir eftir að snjóflóð féll skammt frá grunnbúðum Everest þar sem hún dvelur nú. Slysið er það mannskæðasta í sögu fjallaferða á Everest.

Vilborg skrifar stutt skilaboð á facebooksíðu sína fyrir örfáum mínutum, eða einfaldlega: „I am ok!“ Ingólfur Axelsson, sem einnig er á fjallinu, mun sömuleiðis vera óhultur eftir því sem fram kemur á facebooksíðu hans. Saga Garðarsdóttir leikkona sem gekk í grunnbúðir með Ingólfi er komin aftur til byggða í Nepal.

Snjóflóðið féll um kl. 01:00 í nótt að íslenskum tíma, laust fyrir kl. 7 að morgni að nepölskum tíma. Fyrstu fregnir hermdu að sex væru látnir en tala látinna hefur farið hækkandi síðan og nú er staðfest að minnst 12 létu lífið og fleiri saknað.

Flóðið féll um 500 metrum ofan við grunnbúðir, í um 5.800 metra hæð. Háannatími er nú á Everest og fjöldi fjallgöngugarpa alls staðar að úr heiminum í grunnbúðum að búa sig undir að reyna við tindinn.

Flestir hinna látnu munu vera heimamenn, nepalskir sjerpar, sem lögðu snemma af stað upp hlíðarnar í morgun til að undirbúa leiðina fyrir göngufólkið. Þó mun a.m.k. einn gönguhópur hafa verið lagður af stað.

„Við höfum séð 11 lík færð hingað niður í grunnbúðir en okkur er sagt að við megum eiga von á minnst þremur í viðbót,“ hefur Afp-fréttaveitan eftir björgunarmanni úr sjálfboðaliðasamtökunum Himalayan Rescue Association.

Allar frekari göngur á fjallið í dag hafa verið stöðvaðar. Tugir sjerpar og göngumanna eru enn sagðir fastir á svæði fyrir ofan snjóflóðið. Björgunarþyrlur eru á svæðinu.

Vilborg Arna, Ingólfur og Saga Garðarsdóttir í grunnbúðum Everest fyrr …
Vilborg Arna, Ingólfur og Saga Garðarsdóttir í grunnbúðum Everest fyrr í vikunni. Af Facebook-síðu Vilborgar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert