Lærir hjúkrun en kennir læknum!

Valur Freyr á vaktinni á lyfjadeild Sjúkrahússins á Akureyri: Velti …
Valur Freyr á vaktinni á lyfjadeild Sjúkrahússins á Akureyri: Velti fyrir mér að læra svæfingahjúkrun, segir hann. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Valur Freyr Halldórsson á Akureyri hefur komið víða við enda vill hann hafa nóg að gera; slökkviliðs- og neyðarflutningamaður um árabil og trommari Hvanndalsbræðra, en lærir nú hjúkrun.

Valur hefur lamið húðir í hljómsveitum síðan hann var níu ára en lagði kjuðana að mestu á hilluna um áramótin. Seldi þá trommusettið og allt tilheyrandi. „Ég fann að vísu einn kjuða í sokkaskúffunni um daginn! Hann er það eina sem ég á eftir," segir Valur.

Hann hóf störf hjá Slökkviliðinu á Akureyri 2002 og stofnaði um þær mundir hljómsveitina Hvanndalsbræður ásamt Sumarliða Helgasyni og Rögnvaldi B. Rögnvaldssyni; Summa og Rögnvaldi gáfaða. „Við ákváðum að stofna saumaklúbb og spila sem minnst en hafa sem mest gaman sjálfir! Það breyttist fljótt því brjálað var að gera og góður peningar í boði."

Fljótlega fjölgaði í sveitinni og hún spilaði flestar helgar, hér og þar um landið árum saman. Valur hélt sínu striki í aðalvinnunni, sem slökkviliðs- og neyðarflutningamaður og þar kom að hann langaði að mennta sig meira. „Ég fann fyrir ákveðinni stöðnun og til greina kom að drífa sig í níu mánaða nám til Pittsburg í Bandaríkjunum og verða bráðatæknir. Það er hins vegar meira en að segja það þegar maður er með fjölskyldu og ég ákvað þess vegna að fara í hjúkrunarfræði í Háskólanum á Akureyri og sé ekki eftir því. Mér fannst námið liggja beint við vegna þekkingar minnar varðandi sjúkraflutninga. Í skólanum er mikið farið í lyfjafræði, líffærafræði og lífeðlisfræði og það á vel við mig.“

Valur er hálfnaður með námið en segir framhaldið óráðið. „Mig langar að sérhæfa mig, hvort sem það verður fyrir sjúkraflutninga eða starf inni á spítala. Mér finnst svæfingahjúkrun mest spennandi í augnablikinu, hana yrði ég annað hvort að læra fyrir sunnan eða úti og það er ekkert launungarmál að ég horfi spenntur til Svíþjóðar, en ekkert er öruggt í þeim efnum."

Valur vill hafa nóg fyrir stafni og hafði nýlokið kennslu á endurlífgunarnámskeiði í sjúkraflutningaskólanum þegar blaðamaður ræddi við hann. „Við erum nokkur með réttindi frá evrópska endurlífgunarráðinu, og kennum sjúkrflutningamönnum, læknum og hjúkrunafræðingum sérhæfða endurlífgun." Hjúkrunarfræðineminn sinnir því sem sagt í aukavinnu að kenna læknum...

Starf slökkviliðs- og sjúkraflutningamanns hentar ekki öllum, að sögn Vals, „en það kemur fljótt í ljós hvort starfið á við menn eða ekki. Það þarf sérstaka persónuleika í þetta því við komum að ljótum slysum sem getur tekið mikið á. Ég hef alltaf verið pínulítið ofvirkur og nokkurs konar adrenalínfíkill, og finnst sjálfum að ég standi mig best við aðstæður þar sem er mikið at; það róar mig einhvern veginn niður að lenda í slíku og ég á auðvelt með að einbeita mér."

Mikilvægt er að taka hlutina ekki of nærri sér, þá geta menn brunnið fljótt upp í starfi, segir Valur, og bætir við að mikilvægt sé að ræða málin við starfsfélagana eftir erfið atvik og mikið álag. „Það hljómar kannski undarlega en starfið er fyrir löngu orðið eins og hver önnur vinna fyrir mér en þó ekki þannig að eineitingin minni. Hún þarf allt að vera fullkomin. Ég hef gaman af þessari vinnu og get vonandi sinni henni í mörg ár enn," segir Valur Freyr Halldórsson.

Valur „Hvanndal“ trommaði og söng með Hvanndalsbræðrum en er nýhættur.
Valur „Hvanndal“ trommaði og söng með Hvanndalsbræðrum en er nýhættur. mbl.is/Daníel Starrason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert