Ráðvilltir íslenskir skiptinemar ný tískufyrirmynd

Normcore er nýjasta nýtt í tískuorðabókinni. Orðið lýsir stíl þess sem velur öruggu leiðina í fatavali, er eintóna og tilbreytingarlaus. Hann er ekki djarfur eða töff, hann er venjulegur.

Orðið normcore hefur komið víða við í tískublöðum, eftir að tískuspekúlantar hjá bandaríska fyrirtækinu K-Hole nefndu það fyrst og tímaritið New York birti það á síðum sínum í kjölfarið.

Hugmyndin með normcore virðist vera sú að á tímum þar tískuheimurinn hampar öllu því sem er einstakt og sérvitringslegt, þá sé síðasta vígið til að vera frumlegur falið í því að klæðast eins og argasti meðal Jón.

Geðgóðir geðsjúklingar eða skiptinemar frá Íslandi

Segja má að með normcore nái flækjustig tískuheimsins nýjum hæðum, þar sem hinn tískumeðvitaði töffari leggur sig í líma við að líta út fyrir að vera alls ekkert meðvitaður um eigin fatastíl eða annarra.

Á sama tíma er hættan sú að þú hrósir einhverjum fyrir að vera töff og með á nótunum, þegar viðkomandi er í raun og veru fullkomlega ómeðvitaður um að hinn tilþrifalausi fatastílll hans sé í samræmi við nýjustu tískubylgjur.

En hvernig á að ná fram þessum normcore stíl án þess að vera tilgerðarlegur eða afhjúpa sig sem tískumeðvitaðan? Tískublaðamenn breska blaðsins Independent kynntu sér málið. Þeir segja að normcore stíllinn geti til dæmis falist í gráum buxum, teygðri tíglapeysu og íþróttaskóm með engu merki á.

Með öðrum orðum, segir Independent, þá felst normcore í því að klæða þig eins og geðgóður geðsjúklingur, nú eða þá ráðvilltur íslenskur skiptinemi árið 1984. Góðar fyrirmyndir það.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert