Syngur til sigurs í alþjóðlegri keppni

Hrafnhildur Árnadóttir hefur komið víða við í heimi söngsins.
Hrafnhildur Árnadóttir hefur komið víða við í heimi söngsins. Ljósmynd/Álfheiður Erla Guðmundsdóttir

Hrafnhildur Árnadóttir er ung söngkona sem er búsett í Amsterdam í Hollandi. Í næsta mánuði tekur hún þátt í virtri alþjóðlegri tónlistarkeppni í Belgíu sem kennd er við Elísabetu Belgíudrottningu. Keppnin er mjög krefjandi og þarf Hrafnhildur að undirbúa tuttugu söngtitla til að syngja fyrir dómarana.

Hrafnhildur hóf nám við Söngskólann í Reykjavík árið 2004 og lærði þar söng hjá Dóru Reyndal. Hrafnhildur lauk burtfararprófi þaðan árið 2009 og lá þaðan leiðin til Hollands. Þar hóf hún nám hjá Valerie Guillorit við Konservatoríið í Amsterdam en þaðan lauk hún bachelor-prófi árið 2013. Býr hún þar enn og gegnir nú stöðu við Hollensku óperuakademíuna.

Meðal þess sem er á döfinni hjá Hrafnhildi er þátttaka í Grachtenfestival í Amsterdam þar sem hún mun syngja aðalhlutverkið í óperu eftir Othmar Schoek. Einnig mun hún syngja hlutverk Greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós í næstu uppfærslu Hollensku óperuakademíunnar. Í næsta mánuði stendur þó mikið til þar sem Hrafnhildur mun taka þátt í alþjóðlegri tónlistarkeppni sem haldin er í Brussel í Belgíu á hverju ári.

„Keppnin er kennd við Elísabetu Belgíudrottningu og er hún haldin á hverju ári. Þó er hún haldin þriðja hvert ár fyrir söngvara en hin árin fyrir píanóleikara og fiðluleikara,“ segir Hrafnhildur blaðamanni. Keppnin fer fram í þremur lotum og tekur hún tvær vikur. Nú er búið að velja 73 keppendur úr hópi þeirra 214 sem sóttu um að taka þátt. Er Hrafnhildur eini Íslendingurinn í keppninni og eini Norðurlandabúinn ef út í það er farið.

Tilbúin með tuttugu titla

„Fyrsta umferðin hefst 14. maí en ég þarf að fara til Brussel 11. maí til að draga um sæti í umferðinni,“ segir Hrafnhildur sem bætir við að dagskráin sem hún er að undirbúa fyrir keppnina samanstandi af 20 titlum, bæði aríum og sönglögum. „Í fyrstu umferð mun ég syngja tvær aríur en ef ég kemst áfram þá þarf ég að hafa tvær mismunandi dagskrár tilbúnar, sem eru hálftími að lengd hvor. Það má því segja að ég þarf að undirbúa tvenna hálftíma langa tónleika. Ef ég kemst áfram í undanúrslitin fæ ég að vita daginn áður hvora dagskrána dómnefndin vill heyra.“

Hrafnhildur segir að umsóknarferlið til að fá aðgang í keppnina hafi tekið langan tíma. „Ég ákvað að taka þátt í haust og sendi umsóknina inn í byrjun janúar en það ferli var ansi mikil vinna. Fyrst þurfti ég að fylla út flókna umsókn á netinu og ákveða þá nákvæmlega hvaða dagskrá ég ætlaði að bjóða upp á. Það er ekki hægt að breyta neinu eftir á. Síðan þarf að senda inn allskonar upplýsingar og gögn, bæði í gegnum netið og í pósti. Svo senda allir umsækjendur inn DVD disk með kynningu á sér. Allt þarf að vera pottþétt vilji maður hafa möguleika á að komast inn í keppnina.“

Góður stökkpallur

Hrafnhildur segir að keppnin sé góður stökkpallur sem geti leitt til ýmissa tækifæra fyrir hana sem söngkonu. „Fyrir mér er þetta mikilvæg keppni að því leyti að öll fyrsta umferðin er opin almenningi. Það þýðir að þangað munu koma bæði umboðsmenn ásamt þeim sem sjá um að ráða unga söngvara hér og þar til að heyra í þessum útvöldu söngvurum.“ Hrafnhildur segir jafnframt að keppnin sé gífurlega stór í Belgíu og laði fólk að á hverju ári. „Ég er ótrúlega spennt og finnst alveg frábært að þetta sé opið almenningi. Þá er þetta miklu meira eins og tónleikar heldur en keppni. Maður er ekki lokaður inni í litlu herbergi með dómnefnd heldur er maður á sviði frammi fyrir fullum sal af fólki. Það gerir þetta mjög spennandi að mínu mati,“ segir Hrafnhildur að lokum.

Hrafnhildur tók þátt í tónleikaröðinni Ungir einleikarar.
Hrafnhildur tók þátt í tónleikaröðinni Ungir einleikarar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert