Líf og fjör í lambakrónni

Páskalömb Birgir Arngrímsson og móðurbróðir hans, Steinþór Heiðarsson, með nýfædd …
Páskalömb Birgir Arngrímsson og móðurbróðir hans, Steinþór Heiðarsson, með nýfædd páskalömbin. mbl.is/Atli Vigúfsson

„Það er rosalega gaman að vera hér í sveitinni og gefa kindunum. Ég kem oft um helgar þegar ég get og er þá alltaf í fjárhúsunum, enda hef ég mestan áhuga á sauðfénu og öllu sem því tengist,“ segir Birgir Arngrímsson, 13 ára nemi í Lundarskóla á Akureyri, sem hefur í ýmsu að snúast í páskafríinu á bænum Ytri-Tungu á Tjörnesi.

Þar eru lömbin; fimm gimbrar og fjórir hrútar, farin að hoppa í krónni, en ekki stóð til að sauðburður byrjaði upp úr miðjum apríl svo ánægjan kom nokkuð óvænt.

Venjulega byrja ærnar að bera í byrjun maí, en Birgir er ánægður með þessa tilbreytingu. Það varð uppi fótur og fit þegar komið var í fjárhúsin seinnipart dags þegar ein ær var borin þrílembd og jarmað var víða í krónni, enda ekki búið að setja kindina í sérstakt spil eða burðarstíu.

Er sjálfur orðinn fjáreigandi

Í Ytri-Tungu búa afi og amma Birgis, þau Guðrún Jóhannesdóttir og Jón Heiðar Steinþórsson. Einnig býr þar móðurbróðir hans, Steinþór Heiðarsson, með kýr og alltaf er eitthvað skemmtilegt að gerast í búskapnum.

„Ég þekki þó nokkuð af kindum með nafni, en amma sér um bókhaldið og er með öll nöfnin á hreinu svo það þarf stundum að líta í bókina hjá henni þegar þarf að vita hvað þær heita,“ segir Birgir sem sjálfur er orðinn fjáreigandi og á e.t.v. von á 8-10 lömbum undan sínum ám.

Ærnar sem núna báru heita Gláma, Lúpa, Mýsla og Sókn, en það er ekki ennþá búið að nefna þessi níu lömb sem komu í vikunni. Það er ekki vaninn að nefna þau strax, en það verður gert í haust ef gimbrarnar verða settar á. Það er góður möguleiki á því, en búast má við að þær verði vænar þegar þær eru svona snemmbornar. Hins vegar segir Steinþór að lömb sem fæðist snemma þurfi ekki endilega að mælast sérstaklega vel að hausti og fyrirmálslömbin séu auðvitað ekki með betri byggingu en þau sem fæðast t.d. seint í maí.

Gaman að gæfum kindum

Bróðir Birgis, sem er 10 ára, hefur líka gaman af fénu og þeir bræður reyna að koma í smalamennsku og eru alltaf báðir í réttunum. Birgir segir að það sé mjög gaman að vinna í hlöðunni við að losa heyið og gefa á garðana, auk þess sem hann tekur stundum að sér að tína egg undan hænunum.

Þó að lömbin sem nú fæddust séu ekki orðin gömul þá eru þau strax farin að hoppa um og leika sér, enda öll fædd heilbrigð. Birgir ætlar að vera mikið í fjárhúsunum um páskana, enda mjög gaman að fylgjast með lömbunum þegar þau verða farin að gera alls konar kúnstir. Svo er e.t.v. hægt að gera þau gæf, eins og hrútinn Garp sem alltaf dillar dindlinum þegar honum er klappað.

Þeir frændur, Birgir og Steinþór, eiga ekki von á því að sauðburðurinn sé að hefjast fyrir alvöru, en þeir telja að enn sé von á einni. Það er veturgömul kind sem er orðin mjög burðarleg svo sennilega bætist í hópinn. Páskarnir í Ytri-Tungu verða líklega með skemmtilegra móti þetta árið og líflegt í meira lagi í lambakrónni.

Hrúturinn fagurhyrndi, Garpur, er í miklu uppáhaldi hjá Birgi.
Hrúturinn fagurhyrndi, Garpur, er í miklu uppáhaldi hjá Birgi. mbl.is/Atli Vigfússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert