„Lífið er sterkara en dauðinn“

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, í Dómkirkjunni í morgun.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, í Dómkirkjunni í morgun. Ljósmynd/Árni Svanur Daníelsson

„Það fylgir því ábyrgð að vera kristin manneskja. Sú ábyrgð að feta í spor Jesú. Að fara eftir orðum hans. Að koma fram við náungann á sama hátt og hann. Að taka upp hanskann fyrir þau sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Það er ekki alltaf auðvelt. Það hafa allar kynslóðir kristinna manna reynt.“

Þetta sagði Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, meðal annars í páskaprédikun sem hún flutti í Dómkirkjunni í morgun. Biskup sagði að þannig væri lífsbaráttan. Hún væri oftast innri barátta en einnig ytri barátta þar sem réttlætið virtist ekki til staðar, kærleikurinn fyrir borð borinn eða fyrirgefningin ekki tekin gild. Engin manneskja gengi í gegnum lífið án þess að velta fyrir sér tilgangi eigin lífs eða rökum tilverunnar. Jesús hafi einnig fengið að reyna óréttlæti heimsins og rangar sakargiftir þegar hann hafi verið krossfestur og líflátinn.

„Þá héldu margir að endanlega væri búið að þagga niður í honum sem hafði hrist rækilega upp í samfélagi sínu og borið á borð nýjar hugsanir. En annað kom á daginn. Allt rættist það sem hann hafði sagt um örlög sín, enda hafði það verið skrifað í hans helgu bók. Hann reis upp á þriðja degi og sigraði þar með dauðann. Þessi ógn, dauðinn sem hangir yfir okkur frá vöggu til grafar hafði ekki síðasta orðið,“ sagði hún ennfremur.

Vísaði hún í orð Helga Hálfdánarsonar sem hafi orð á þá leið að dauðinn hafi dáið en lífið lifað. Þess yrði fólk vart í persónulegu lífi sínu og ekki síst þegar náttúran vaknaði til lífsins að vori hverju eftir kaldan veturinn. „Upp úr moldinni potast blómin litskrúðug. Undir brúnni moldinni sem virðist líflaus allan veturinn og undan snjósköflunum birtist gróðurinn sem minnir okkur líka á að lífið er sterkara en dauðinn.“

Páskaboðskapurinn veitti von og kraft til áframhaldandi göngu á lífsins vegi. Það ætti jafnt við einstaklinga og sem samfélagið í heild. „Við getum hvert og eitt haft á áhrif á samfélagið. Við höfum leyfi til að láta í okkur heyra ef okkur finnst eitthvað mega betur fara og það hafa margir gert síðast liðnar vikur. Vandi þeirra sem taka ákvarðanir fyrir fjöldann er mikill og orð þeirra og gjörðir valda oft vonbrigðum.“

Vonbrigðin hafi líka verið mikil hjá fylgjendum Jesú þegar lýðnum tókst að fá hann dæmdan til krossfestingar. „Gleðin var því þeim mun meiri þegar dauðans vald hafði ekki síðasta orðið. Vonin sem kveikt hafði verið í brjósti fylgjenda hans blés þeim bjartsýni í brjóst og gaf þeim kraft til að vinna heiminum gagn og útbreiða þá hugsun að vald kærleikans mætti nota til að bæta heiminn.“

Páskapredikunin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert