Hugað líf eftir brodd og volga sturtu

Huðnan fékk strax smá brodd, en fljótlega var hún byrjuð …
Huðnan fékk strax smá brodd, en fljótlega var hún byrjuð að sjúga sprautuna sjálf. Mynd/Geitfjársetrið á Háafelli

Í gærmorgun fæddist lítil huðna með útþanið kviðarhol af vökva á Háafelli í Hvítársíðu og var vart hugað líf. Þrátt fyrir litla lífsmöguleika ákvað Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, geitabóndi, að koma broddi ofan í huðnuna og athuga hvort hún myndi taka við sér. Það gerði hún og var því næst sett í volga sturtu og er nú komin á ágætis ról. Segir Jóhanna að þrátt fyrir að enn sé of snemmt að segja til um hvort huðnan muni lifa áfram sé hún nokkuð sprækari en í gær og heimti mjólkurdreitil reglulega.

Vatnsvömb er að sögn Jóhönnu mjög sjaldgæf, en sjálf man hún aðeins eftir tveimur öðrum tilvikum. Í bæði skiptin drápust kiðlingarnir innan sólarhrings, þannig að nýfædda huðnan hefur nú þegar staðið af sér mikla þolraun. Jóhanna segir hana einnig töluvert sprækari en hinar sem drápust. 

Eftir burðinn sinnti móðirin huðnunni ekkert og segir Jóhanna að dýr skynji oft þegar eitthvað sé að og bregðist svona við. Því hafi verið ljóst frá upphafi að mikið væri að. Hún hafi þó ekki gefist upp á henni, gefið henni brodd með sprautu og sett í heita sturtu. Þá hafi hún verið í fanginu á Jóhönnu stóran hluta dagsins og var sjálf farin að sjúga sprautuna sem henni var gefin mjólk úr.

Á Háafelli er stærsta geitabú landsins með 160 huðnur, þar af 150 sem bera. Jóhanna segir að burður sé að hellast yfir þessa dagana, en á síðustu fjórum dögum hafa 50 kiðlingar komið í heiminn.

Huðnan nýfædda er öll byrjuð að braggast til, en Jóhanna …
Huðnan nýfædda er öll byrjuð að braggast til, en Jóhanna segir enn of snemmt að segja til um hvernig henni muni reiða af. Mynd/Geitfjársetrið á Háafelli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert