„Næstu dagar verða erfiðir öllum“

Ingólfur Axelsson í grunnbúðum Everest.
Ingólfur Axelsson í grunnbúðum Everest. Af Facebook

„Versti dagur í Everest er að kvöldi kominn,“ segir fjallagarpurinn Ingólfur Axelsson í myndskeiði sem hann birtir frá grunnbúðum Everest á Facebook-síðu sinni.

Staðfest er að 13 eru látnir og þrír hafa ekki enn fundist. „Öll liðin hafa orðið fyrir miklum skaða,“ segir Ingólfur. „Og mórallinn er mjög slæmur víðast hvar. Mönnum er mikið niðri fyrir. “

Hann segir sjerpana funda og ræða málin sín á milli. „Það voru sjerpar sem létu lífið, enginn vesturlandabúi. Það eru mjög fáir á ferli og ég býst við að næstu dagar verði mjög erfiðir öllum sem eru hérna.“

Tveir Íslendingar voru í grunnbúðum Everest-fjalls í Nepal er snjóflóð féll á föstudag. Auk Ingólfs er Vilborg Arna Gissurardóttir í grunnbúðunum. Stefndu þau bæði  á hæsta tind Everest á næstu dögum.

Leiðangursstjórar og leiðsögumenn hafa í dag hótað að hætta við allar ferðir á Everest-fjall í kjölfar mannskæðasta snjóflóðs í sögu fjallsins. Í dag minnast nepalskir sjerpar fallinna félaga sinna.

Hér má fylgjast með Ingólfi á bloggsíðu hans.

Frétt mbl.is: Hóta að hætta öllum ferðum á fjallið

Snjóflóðið á leið niður hlíðar Everest á föstudag.
Snjóflóðið á leið niður hlíðar Everest á föstudag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert