Búast við biðröðum um níuleytið

Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Straumur ferðamanna til flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er farinn að þyngjast. Að sögn Kristjáns Jóhannssonar, formanns Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, var afar fámennt í flugstöðinni um sexleytið í morgun, en búast má við því að örtröð myndist þegar verkstöðvuninni lýkur klukkan níu.

Starfsmenn Isavia á Keflavíkurflugvelli hófu verkstöðvunina klukkan fjögur í nótt.

Kristján segir að gott hljóð sé í mannskapnum og að verkfallsvarslan gangi afar vel.

Fámennt hafi verið snemma í morgun en þó hafi nokkrir útlendingar, sem vissu ekki af verkstöðvuninni, mætt eldsnemma, eins og gengur og gerist.

Að sögn Kristjáns má gera ráð fyrir að biðraðir myndist eftir innritun í flug þegar starfsemi fer í gang á nýjan leik klukkan níu. „Þetta tekur tíma. Því þegar það er búið að stöðva alla starfsemi þá myndast biðraðir eðli málsins samkvæmt. Við verðum að vona að sá þrýstingur, sem verði til við það, verði til þess að skilningur á okkar málum aukist.

Það er tilgangurinn með þessu öllu saman,“ segir Kristján.

Búast má við þriggja til fjögurra klukkutíma seinkun á komum og brottförum allra millilanda flugvélara til og frá landinu vegna vinnustöðvunarinnar.

Icelandair breytti áætlun allra flugvéla sinna sem fóru frá Bandaríkjunum í gær og allra flugvéla sem eiga að fara í dag. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa flugfélagsins, hefur vinnustöðvunin áhrif á um fimm þúsund farþega félagsins. Vonast sé til að flugáætlun verði komin aftur í fastar skorður að um sólarhring liðnum.

Funda í dag klukkan þrjú

Fulltrúar Isavia og Félags flugmálastarfsmanna ríkisins munu funda klukkan þrjú í dag. Kristján segist vera hóflega bjartsýnn. „Það er allavega jákvætt að við skulum vera að hittast og halda áfram þar sem frá var horfið í gær,“ nefnir hann. 

Flugvallarstarfsmenn hafa boðað til samskonar vinnustöðvunar næsta föstudag milli klukkan fjögur og níu ef samningar hafa ekki nást. Allsherjarverkfall mun síðan skella á þann 30. apríl næstkomandi. 

„Við höfum nú góðan tíma til að komast að samkomulagi fyrir það. Við tökum nú bara einn dag í einu. Klárum fundinn í dag og sjáum svo hvað gerist,“ segir Kristján.

Víkurfréttir/Hilmar Bragi
Örtröð myndaðist í flugstöðinni í verkstöðvuninni þann 8. apríl síðastliðinn.
Örtröð myndaðist í flugstöðinni í verkstöðvuninni þann 8. apríl síðastliðinn. Víkurfréttir/Hilmar Bragi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert