Höfðu afskipti af rússneskum herflugvélum

Bresk Typhoon orrustuþota og rússnesk sprengjuflugvél af gerðinni Tupolev 95.
Bresk Typhoon orrustuþota og rússnesk sprengjuflugvél af gerðinni Tupolev 95. Ljósmynd/Breska varnarmálaráðuneytið

Bresk orrustuþota af gerðinni Typhoon var í kvöld send til móts við tvær rússneskar sprengjuflugvélar sem voru á flugi rétt utan við lofthelgi Bretlands norðaustur af Skotlandi. Fram kemur á fréttavef Sky-sjónvarpsstöðvarinnar er talið að um hafi verið að ræða sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev 95 sem kallaðar eru Birnir.

Einnig segir í fréttinni að rússneski tundurspillirinn Vice Admiral Kulakov hafi nýverið sést á siglingu skammt frá landhelgi Bretlands. Breski tundurspillirinn HMS Dragon hafi verið sendur á staðinn í kjölfarið til þess að fylgjast með rússneska skipinu.

Þá segir í fréttinni að það gerist reglulega að erlendar herflugvélar fljúgi í nánd við lofthelgi Bretlands. Átta slík atvik hafi átt sér stað á síðasta ári. Þau snúist um að kanna varnarviðbrögð viðkomandi ríkja.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni vissi stjórnstöð NATO hér á landi af flugvélunum en þær hafi ekki farið inn á íslenska hluta loftrýmiseftirlitssvæðis NATO. Það gerist hins vegar annað slagið að rússneskar herflugvélar eigi leið framhjá Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert