Öllum ferðum seinkar

Frá vinnustöðvuninni 8. apríl síðastliðinn.
Frá vinnustöðvuninni 8. apríl síðastliðinn. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Búast má við þriggja til fjögurra tíma seinkun á komum og brottförum allra millilandaflugvéla til og frá landinu vegna vinnustöðvunar flugvallarstarfsmanna á Keflavíkurflugvelli sem hófst klukkan fjögur í nótt og stendur til klukkan níu fyrir hádegi í dag. Búist var við um tveggja klukkustunda seinkun á Reykjavíkurflugvelli.

Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli verður opin, en ekki verður byrjað að innrita farþega fyrr en klukkan níu og er gert ráð fyrir að öllu morgunflugi seinki um þrjá til fjóra klukkutíma vegna þessa.

Unnið verður eftir viðbragðsáætlun sem miðar að því að takmarka sem mest röskun og óþægindi. Flugfarþegum er bent á að fylgjast með tilkynningum á vefsvæðum flugfélaganna, Keflavíkurflugvallar eða Isavia um breytingar sem kunna að verða á flugáætlun, segir á vef Keflavíkurflugvallar.

Icelandair breytti áætlun allra flugvéla sinna sem fóru frá Bandaríkjunum í gær og allra flugvéla sem eiga að fara í dag. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa flugfélagsins, hefur vinnustöðvunin áhrif á um 5.000 farþega félagsins. Vonast sé til að flugáætlun verði komin aftur í fastar skorður að um sólarhring liðnum.

Fulltrúar Isavia og Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) funduðu frá því í gærmorgun og fram á tíunda tímann í gærkvöldi, án árangurs. Samningsaðilar ákváðu þó að hittast aftur til viðræðna kl. 15 í dag.

Boðað hefur verið til frekari vinnustöðvunar föstudaginn næsta, 25. apríl, og verkfalls frá og með 30. apríl hafi ekki verið samið þá.

Víkurfréttir/Hilmar Bragi
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert