Vilja varast of mikla litagleði

Það voru mjög svo skiptar skoðanir um breytingar sem gerðar …
Það voru mjög svo skiptar skoðanir um breytingar sem gerðar voru á Hofsvallagötu síðasta haust. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ráðgjafasvið KPMG hefur skilað skýrslu um íbúafund sem haldinn var á Hótel Sögu í mars um endurhönnun Hofsvallagötu. Fundurinn var vinnufundur en fundargestir skeggræddu hugmyndir sínar um götuna og endurhönnun hennar. Fjölmargar áhugaverðar hugmyndir komu fram á fundinum.

Skýrsla KPMG er ítarleg en þar eru allar hugmyndir fundargesta skráðar. Skoðanir varðandi endurhönnun götunnar voru skiptar en þó mátti greina samhljóm.  Margir höfðu áhyggjur af öryggismálum við götuna og sögðu hraðakstur vera á neðsta kafla hennar. Hvatt var til þess að umferðarhraði yrði lækkaður.

Hofsvallagata er einstök borgargata en frá efsta punkti hennar er bein sjónlína niður að sjó sem er einstakt fyrir breiðgötu í Reykjavík, segir í samantekt um skýrsluna. Íbúar töldu mikilvægt að gróður sem notaður verður til þess að fegra götuna myndi ekki skyggja  á þessa sjónlínu. Komu fram þau sjónarmið að aðliggjandi garðar við Hofsvallagötu séu grónir með háum trjám og því sé nægur gróður við götuna. 

Þá heyrðust þau sjónarmið á fundinum að endurgerð götunnar eigi að vera í stíl við hverfið og varast beri of mikla litagleði við endurhönnun hennar.

Afstaða til hjólastíga við götuna var misjöfn þar sem ýmist er lagt til að fjarlægja þá, færa í aðrar götur, bæta tengingar, breikka eða mjókka. Þá  var bent á kosti þess að opna botnlangagötur að Hofsvallagötu þar sem það gæti dreift umferðarálagi um hverfið.

Niðurstöðurnar verða hafðar til hliðsjónar við endurhönnun götunnar en Hofsvallagatan er svokölluð borgargata samkvæmt nýju aðalskipulagi og stendur til að endurhanna hana frá Hringbraut og að Ægisíðu. Í slíkum götum er áhersla lögð á jafnt aðgengi fyrir alla, gangandi, hjólandi og akandi, ásamt því að hugað er að umferðaröryggismálum og hægt á umferð.

Endanleg hönnun verður kynnt fyrir íbúum í hverfinu þegar hún liggur fyrir en samkvæmt framkvæmdaáætlun borgarinnar  eiga 150 milljónir króna að fara í gagngera endurgerð götunnar.

Skýrslan í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert