Vinstri græn munu hugsa um börnin

Líf Magneudóttir og Sóley Tómasdóttir kynntu áherslur Vinstri grænna í …
Líf Magneudóttir og Sóley Tómasdóttir kynntu áherslur Vinstri grænna í Reykjavík í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Áherslurnar eru róttækar og ábyrgar. Þær snúast um að jafna kjör, uppræta fátækt og vinna gegn síaukinni mismunun í samfélaginu. Það verður fyrst og fremst gert með því að koma til móts við börn og barnafjölskyldur,“ sagði Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, í Björnslundi í dag.

Björnslundur er útikennslustofa Norðlingaholtsskóla og sagði Líf Magneudóttir, sem skipar 2. sæti listans, ástæðu þess að fólk hafi verið boðað þangað að svæðið sé táknrænt fyrir áherslur Vinstri grænna í borginni. „Við ætlum að leggja mikla áherslu á börn. Og ef það væri ekki fyrir Vinstri græn þá væri þessi útikennslustofa kannski ekki til, vegna þess að við komum á fót náttúruskólanum í den og það verkefni hefur vaxið.“

Sóley og Líf skiptu með sér að greina frá helstu málefnaáherslum flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Líf hóf leik og var ljóst af orðum hennar að Vinstri græn ætla sér að hugsa um börn borgarbúa á næsta kjörtímabili. „Fátækt er vaxandi vandamál í samfélaginu og við viljum uppræta henni. Við viljum bjóða upp á gjaldfrjálsa leik-, grunnskóla og frístundaheimili. Við viljum bjóða upp á gjaldfrjálsa þjónustu við börn, bæði vegna þess að það er jafnréttismál en líka vegna þess að þar býr að baki jafnaðarmannahugsunin og það er réttlætismál. Við viljum að öll börn sitji við sama borð og létta byrðar barnafjölskyldna, en það eru þær sem oftast þurfa að bera mestu byrðarnar í samfélaginu.“

Þá sagði Líf að Vinstri græn vilji skapa pláss á borgarreknum leikskólum til að koma inn börnum þegar fæðingarorlofi lýkur. „Við ætlum að þrýsta á ríkið og hefjast handa í Reykjavík með því að fjölga markvisst plássum.“

Farið í óþolandi sameiningar

Líf endurtók að nýju að höfuðáherslan hjá Vinstri grænum verði lögð á börn, menntun og þroska þeirra hvort sem er í leikskóla, grunnskóla eða frístundastarfi. „Og við ætlum að treysta fagstéttunum til þess. Það var farið út í algjörlega óþolandi sameiningar sem engu skiluðu og það er komið rót á fagstarfið. Myndast hefur trúnaðarbrestur hjá leikskólakennurum og grunnskólakennurum og þetta traust viljum við endurvekja. Við viljum koma á virku samráði, opna skólastarfið og treysta fagfólkinu til að sinna því fagstarfi sem þar fer fram.“

Einnig vilja Vinstri græn stórefla frístundastarf fyrir 5.-7. bekk og 16-18 ára ungmenni. „Fyrir þessu ætlum við að beita okkur.“

Orkuveitan aldrei einkavædd

Sóley tók næst til máls og sagði að standa þurfi með stofnunum samfélagsins. Standa þurfi með hverfisskólunum, leikskólunum og frístundastarfinu. Standa þurfi með velferðinni og standa þurfi með samfélagslegum fyrirtækjum sem borgin rekur, s.s. Sorpu, Strætó og Orkuveitunni. „Þá þarf kannski að leggja ríkustu áhersluna á Orkuveituna sem skipt hefur verið upp og það eru blikur á lofti. Allir flokkar hafa sýnt því áhuga að einkavæða Orkuveituna að hluta eða í heild en við munum standa keik gegn því. Það er algjört lykilatriði að þessar stofnanir og fyrirtæki séu rekin á ábyrgð samfélagsins og að almenningur hafi forræði yfir þeim. Öðruvísi komum við aldrei til með að hafa hér almennilegt velferðarsamfélag.“

Þá sagði hún að borgin þurfi að vera miklu ábyrgari gagnvart auðlindum sínum, ekki síst jarðhitaauðlindinni á Hellisheiði. „Það er ljóst að við fórum alltof geyst af stað þar og við erum að ofnýta svæðið. Við munum ekki samþykkja neinar frekari virkjanir á svæðinu fyrr en jafnvægi hefur náðst og fundin hefur verið lausn á brennisteinsmengun og niðurdælingavandanum.“

Einkabíllinn mesta meinsemdin

Sóley benti þá á að allar borgir heims séu að vinna að áætlun vegna loftslagsvandans. „Það er eitthvað sem Reykjavíkurborg þarf að taka miklu fastari tökum. Það gerum við meðal annars með því að þétta byggð, breyta samgöngumátum, draga úr sóun og neyslu og auka sorphirðu. En ekki síst með því að auka nærþjónustu þannig að fólk geti nálgast það sem það þarf án þess að nota einkabílinn. Einkabíllinn er einhver mesta meinsemd þegar kemur að loftslagsvánni.“

Þá sagði hún Vinstri græn standa með húsnæðisstefnu borgarinnar og þeim áformum sem eru uppi. „Það er þannig að við munum byggja á kjörtímabilinu 2.500 íbúðir, leigu- og búseturéttaríbúðir, til þess að bæta húsnæðismarkaðinn og gera hann sanngjarnari. En við ætlum einnig að gera áætlun um að eyða biðlistum eftir félagslegum íbúðum, hjá þeim sem eru í brýnni þörf. Við teljum að það séu um 550 íbúðir sem þarf að byggja eða kaupa til þess.“

Vefsvæði Vinstri grænna

Líf Magneudóttir og Sóley Tómasdóttir í Björnslundi, útikennslustofu Norðlingaholtsskóla í …
Líf Magneudóttir og Sóley Tómasdóttir í Björnslundi, útikennslustofu Norðlingaholtsskóla í dag. mbl.is/Andri Karl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert