Virðist sem vín renni í stað vatns

Reykjanesbær
Reykjanesbær Sigurður Bogi Sævarsson

„Í Reykjanesbæ virðist allt vera að gerast og bráðlega muni drjúpa smjör af hverju strái og vín renna í stað vatns,“ sögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ við umræðu um ársreikning sveitarfélagsins á síðasta bæjarstjórnarfundi. „Flestir fjölmiðlar landsins taka þátt í þessum leik og loforðalistinn lengist með hverjum deginum sem líður.“

Ársreikningurinn var til umræðu á bæjarstjórnarfundi um miðjan mánuðinn. Í tengslum við hann sendi Reykjanesbær frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kom að skuldaviðmið Reykjanesbæjar, sem mælir heildarskuldir á móti tekjum, hafi lækkað úr 445% árið 2009 þegar það var hæst í efnahagskreppunni niður í 248,5% á síðasta ári. Einnig að stefnt sé að því að það nái undir 150% árið 2019.

Í bókun frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sagði að öllum ætti að vera ljóst að erfitt ár sé að baki. „Enn reyndist uppbygging Reykjaneshafnar í Helguvík tefjast, bæði vegna stirðleika í innleiðingu erlends fjármagns, lítillar framþróunar í orkusamningum og ríkisstjórnar sem ekki var sammála um stuðning við atvinnuverkefnin í Reykjanesbæ. Milljarða fjárfesting í atvinnutækifærum skilaði sér því afar takmarkað á árinu með tilheyrandi fjármagnskostnaði.“

Einnig að bið eftir atvinnutækifærum hafi reynst atvinnulausum íbúum og bæjarsjóði kostnaðarsöm. Engu að síður séu teikn á lofti. „Jákvæðar vísbendingar hafa komið fram á þessu ári um að uppbygging Reykjaneshafnar í Helguvík sé að fara á fulla ferð og að raunverulegt atvinnuleysi sé að minnka.“ Þá sé rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs og samstæðu Reykjanesbæjar jákvæð um 2,6 milljarða kr. fyrir afskriftir og fjármagnsliði.

Þessu tóku bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fálega og sögðu ekkert nýtt við loforðaflaum frá meirihlutanum. „Það eru kosningar eftir nokkrar vikur og þá þarf að laga ímyndina. [...] Ársreikningurinn veldur miklum vonbrigðum, flestir spádómar og áætlanir brugðust og bærinn okkar er í miklum vanda,“ segir í bókun bæjarfulltrúanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert