Icelandair hefur breytt áætlun sinni

Vegna verkfalls starfsmanna Isavia á Keflavíkurflugvelli í fyrramálið hafa Icelandair breytt áætlun allra flugvéla sem fara frá Ameríku í dag sem og allra flugvéla sem eru í áætlun á morgun.

Upplýsingar um nýja brottfarartímann verða sendar á alla tölvupósta og farsímanúmer sem félagið hefur tiltæk úr bókunum, að því er segir á vef flugfélagsins.

Verkfallið veldur því að Keflavíkurflugvöllur er lokaður frá klukkan 04:00 til 09:00 að morgni 25. apríl með þeim afleiðingum að öllu flugi Icelandair til og frá flugvellinum á þessum tíma mun seinka þar til eftir klukkan níu, en engu flugi verður aflýst.  

Gera má ráð fyrir að flestum brottförum þennan morgun seinki um þrjár til fjórar klukkustundir og jafnframt að röskun verði á flugi næsta sólarhringinn á eftir.

Innritun í Keflavík opnar klukkan níu og því munu flug til Evrópu fara á milli klukkan tíu og ellefu, eftir því hve vel gengur með innritun og öryggisleit.

Eru farþegar hvattir til þess að fylgjast vel með upplýsingum um komu- og brottfarartíma á Keflavíkurflugvelli næstu daga.

WOW air er með áætlunarflug til og frá Kaupmannahöfn og London á morgun og segir á vef flugfélagsins að gera megi ráð fyrir að brottfarir og komur á flugi WW201, WW303, WW202, WW304, WW205 og WW206, seinki um þrjár til fjórar klukkustundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert