Kostnaður sem leggst þungt á heimili

„Við sjáum aðvörunarljós blikka í tölum um fjölda þeirra sem fresta því að sækja sér nauðsynlega læknisþjónustu,“ segir Signý Jóhannesdóttir, varaforseti ASÍ og formaður Stéttarfélags Vesturlands. Hún segir einn grundvallarþátt velferðar gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Í pistli á vef Alþýðusambands Íslands segir Signý að Íslendingar hafi haft samfélagssáttmála um að öllum landsmönnum skuli tryggð besta heilbrigðisþjónusta sem völ er á. „Þetta endurspeglast m.a. í markmiði laga um heilbrigðisþjónustu og stefnuskrám flestra stjórnmálaflokka. Vaxandi kostnaðarþátttaka sjúklinga í heilbrigðiskerfinu á undanförnum áratugum hefur unnið gegn þessu markmiði.“

Þá segir Signý að allir þekki dæmi af tug- og jafnvel hundruð þúsunda króna reikningum sem sjúklingum sé gert að greiða og að þessi kostnaður leggist þungt á mörg heimili.

Hún vísar til rannsóknar Félagsvísindastofnunnar frá því í fyrra en þar kom fram að tæplega þriðjungur landsmanna frestaði læknisheimsókn á síðustu sex mánuðum og hlutfallið var enn hærra meðal lágtekjufólks og öryrkja. „Það er verulegt áhyggjuefni hversu margir tilgreina há komugjöld og mikinn lyfjakostnað sem helstu ástæðu frestunar.“

Signý segir vel að ráðherra heilbrigðismála hafi skipað nefnd um samræmt niðurgreiðslukerfi fyrir alla heilbrigðisþjónustu. Hins vegar, og í ljósi ummæla hans, megi ætla að hugmyndin sé einkum tilfærsla á kostnaði milli hópa, sem þýði enn hærri gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu fyrir allan meginþorra almennings. „Niðurstaðan má aldrei verða sú að við sættum okkur við samfélag þar sem hluti þjóðarinnar þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu þegar heilsan bilar. Við viljum samfélag fyrir alla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert