Níu slösuðust í sjö umferðarslysum

mbl.is/Júlíus

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö slysum á höfuðborgarsvæðinu. Einn vegfarandi var á reiðhjóli, einn á bifhjóli og þá var ekið á tvo gangandi vegfarendur. Tveir ökumenn óku útaf og eitt slys varð er þrjár bifreiðar skullu saman, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Miðvikudaginn 16. apríl um tvöleytið varð umferðarslys á bifreiðastæði við Hátún 12 í Reykjavík þegar bifreið, sem ekið var um planið, ók á hjólreiðamann. Í tilkynningu segir að reiðhjólamaðurinn hafi ekki borið hjálm á höfði, en hann féll í götuna við áreksturinn og var fluttur á slysadeild til skoðunar.

Laugardaginn 19. apríl um klukkan 13 varð umferðarslys á Reykjanesbraut við Arnarnesbrú þegar ökumaður bifreiðar, sem ók norður Reykjanesbraut, missti vald á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði útaf og valt.

Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar en hann er grunaður um að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum áfengis. Að auki var hann réttindalaus.

Dottaði við aksturinn

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 21. apríl. Um kl. 18.30 varð umferðarslys á Reykjanesbraut skammt austan við álverið í Straumsvík þegar ökumaður missti vald á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði útaf. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar en hann er grunaður um að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum fíkniefna.

Um kl. 19 varð umferðarslys á Reykjanesbraut, skammt frá slysstaðnum við Straumsvík, þegar bifreið sem var ekið vestur Reykjanesbraut fór yfir á öfugan vegarhelming og hafnaði á tveimur bifreiðum sem komu úr gagnstæðri átt. Alls voru þrír vegfarendur fluttir á slysadeild til skoðunar en grunur leikur á að ökumaðurinn hafa dottað við aksturinn og sveigt yfir á öfuga akrein með fyrrgreindum afleiðingum, segir í tilkynningunni.

Um kl. 21.30 varð síðan umferðarslys á Miklubraut neðan Ártúnsbrekku þegar ökumaður bifhjóls missti vald á hjólinu með þeim afleiðingum að hann féll í götuna. Hann var fluttur á slysadeild til skoðunar en talið er að sprungið hafi á framhjólbarða hjólsins með fyrrgreindum afleiðingum.

Tvö umferðarslys seinasta þriðjudag

Þá voru tvö umferðarslys tilkynnt þriðjudaginn 22. apríl. Um tíuleytið fyrir hádegi varð umferðarslys í Norðufelli í Breiðholti, rétt við Fellaskóla, þegar drengur varð fyrir bifreið.

Þannig háttaði til að strætisvagn hafði stöðvað til að hleypa út farþega en í sama mund var bifreið ekið framúr stætisvagninum. Pilturinn, sem varð fyrir bifreiðinni, gekk út á götuna framan við vagninn og hafnaði framan á bifreiðinni sem var ekið framúr vagninum.

Pilturinn var fluttur á slysadeild til skoðunar en örsök slyssins er óvarlegur framúrakstur ökumannsins þar sem vænta má umferðar gangandi vegfarenda við skóla.

Um klukkan 15 varð umferðarslys á Sundlaugavegi við Gullteig þegar gangandi vegfarandi var á leið yfir Sundlaugaveg á grænu gangbrautarljósi. Bifreið var ekið af Gullteig og beygt til hægri inn á Sundlaugaveg þar sem hún ók á vegfarandann. Ekki er talið að meiðsli hafi verið mikil en ökumaður bifreiðarinnar er talinn hafa ekið yfir gangbrautarljósin á rauðu ljósi

mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert