Nýtt hótel í Neskaupstað

Hákon Guðröðarson og Hafsteinn Hafsteinsson.
Hákon Guðröðarson og Hafsteinn Hafsteinsson.

Um miðjan maí opnar nýtt 15 íbúða hótel í Neskaupstað sem áður hýsti kaupfélag bæjarins. Hótelið ber nafnið Hildibrand hotel eftir fjölskyldufyrirtækinu sem sér um rekstur þess. Þegar hefur verið nokkuð um bókanir í sumar.

Hákon Guðröðarson og eiginmaður hans, Hafsteinn Hafsteinsson, sjá um rekstur hótelsins. Hildibrand er fjölskyldufyrirtæki í eigu þeirra og foreldra Hákonar, Guðröðar Hákonarsonar og Þóru Lindar Bjarkadóttur.

Í lok árs stofnaði Hildibrand fjárfestingafélag með Síldarvinnslunni og Samvinnufélagi útgerðarmanna og keypti það gömlu höfuðstöðvar Kaupfélagsins Fram í nóvember. Frá þeim tíma hafa verið gerðar endurbætur á húsinu og þegar mbl.is náði tali af Hákoni var verið að leggja lokahönd á verkið.

Vitundarvakning á Austurlandi 

Húsið er tæpir 2000 fermetrar. Í því eru 15 íbúðir og gistirými fyrir 92 manneskjur. Minnstu íbúðirnar eru 55 fermetrar og þær stærstu um 100 fermetrar. Þá eru allar íbúðirnar útbúnar svölum. Hákon segist finna fyrir mikilli vitundarvakningu meðal aðila í ferðaþjónustu á Austurlandi. „Það er verið að byggja upp gistingu í nánast hverjum einasta firði. En þetta hafa verið litlar einingar og við erum með stærstu einingunum í fjörðunum hér í kring,” segir Hákon.

Hann segir að vel sé lagt í hótelið. „Það sem einkennir okkur einna helst er ferskur matur. Á jarðhæðinni verður veitingastaður sem heitir Kaupfélagsbarinn. Þar munum við einblína á að bjóða fram gott sjávarfang.  Svo held ég að við séum eina hótelið á landinu sem er með eigin kjöt- og fiskvinnslu. Við vinnum allt hráefnið sjálf,” segir Hákon.

Matartrukkur og sælkeraframleiðsla

Hákon og Hafsteinn fluttu í Neskaupstað árið 2011 til að gera átak í ferðaþjónustu á Norðfirði og hefur fyrirtækið vaxið jafnt og þétt síðan þá. 

„Í upphafi þjónustuðum við ferðaskrifstofur með hópa um svæðið og þá mest gay hópa. Í lok árs 2012 fórum við í staðbundna matvælaframleiðslu og  veisluþjónustu. Í upphafi síðasta árs bættist  matartrukkurinn Fjallkonan við í reksturinn. Í kjölfarið keyptum við og gerðum upp gömlu mjólkurstöðina á Norðfirði, breyttum henni í sælkeraframleiðslu, kjöt og fiskvinnslu auk þess að við breyttum gömlu mjólkurbúðinni í sælkeraverslun. Þar eru afurðir sem við framleiðum sjálf auk fersks kjöts og fisks sem að við vinnum einnig.Í Mjólkurstöðinni erum við dugleg að vinna með eldra fólki sem kemur inn og kennir okkur verkaðferðir og vinnsluhætti sem að við svo nýtum áfram í framleiðslunni,” segir Hákon.

87 ára stýrir fiskflökun 

Að sögn hans starfa 14 hjá fyrirtækinu í heils árs starfi. Þar af eru sjö í fullu starfi og sjö í hlutastörfum. Hjá því starfa meðal annars að jafnaði þrír til fjórir eldri borgarar. „Elsti starfsmaðurinn er flakarinn okkar, hann Ari flakari sem er 87 ára. Hann kemur og stjórnar allri fiskflökun,” segir Hákon.

„Gaman er að geta þess að gamla kaupfélagshúsið var byggt árið 1948 af langafa mínum Hildibrandi Guðröði Jónssyni sem að var kaupfélagsstjóri hér í 50 ár og var mjög framsýnn þegar að hann réðst í byggingu þessa 2000 fermetra húss sem var mikil undra bygging á þeim tíma. Öll fjölskyldan er alin upp í húsinu eða hefur unnið í Kaupfélaginu og Mjólkurstöðinni," segir Hákon. 

Sjá einnig: Ekkert mál að koma út úr skápnum 

Íbúðahótelið verður með gistirými fyrir 92 manneskjur.
Íbúðahótelið verður með gistirými fyrir 92 manneskjur.
Kaupfélagið var byggt árið 1948.
Kaupfélagið var byggt árið 1948.
Engu hefur verið til sparað við að gera hótelið vistlegt.
Engu hefur verið til sparað við að gera hótelið vistlegt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert