Sjálfbær JÖR í Kaupmannahöfn

Haustlína JÖR 2014 var sýnd á RFF á dögunum og …
Haustlína JÖR 2014 var sýnd á RFF á dögunum og hluti hennar var einnig sýndur á Copenhagen Fashion Summit í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er mikil vakning í þessu og hefur verið mjög inspírerandi fyrir okkur að hitta fólk í bransanum og sjá hvað er hægt að gera,“ segir Guðmundur Jörundsson fatahönnuður, sem tók í dag þátt í Copenhagen Fashion Summit ásamt 12 fremstu hönnuðum Norðurlanda, frá merkjum eins og Filippa K og Marimekko.

Ráðstefnan fór fram í Óperuhúsinu í Kaupmannahöfn og er þetta í þriðja sinn sem hún er haldin, en viðfangsefnið er sjálfbærni í tísku og samfélagsleg ábyrgð tískuiðnaðarins. Viðburðurinn er sá stærsti sinnar tegundar í heiminum og auk norrænu hönnuðanna sem sýndu hönnun sína voru þar fulltrúar fjölda tískuhúsa alls staðar að.

Vitund stóru tískuhúsanna að vakna

Guðmundur sýndi hluta úr haustlínu JÖR 2014, sem hann sýndi á dögunum á Reykjavík Fashion Festival, en með sérstöku sniði þó. „Þetta var svona hönnunaráskorun. Við flugum út í nóvember til að skoða efni sem boðið var upp á. Áskorunin var margþætt en meðal annars sú að við urðum að nota að minnsta kosti til helminga endurvinnanleg efni.“

Aðspurður hvort það sé raunhæf krafa í tískubransanum segir Guðmundur svo vera. „Já algjörlega, en maður þarf bara að gera þetta hægt og rólega. Flóknast er að komast yfir alla tengiliðina, efnaframleiðendurna. Það er aldrei sama úrval, en þetta er samt búið að breytast á síðustu árum og komið mun meira úrval af efnum.“

Að sögn Guðmunds eru Danir mjög framarlega í þessum efnum og í umhverfisvænni hugsun almennt. „En maður sá líka að öll þessi stóru vörumerku eru byrjuð að taka á þessu og leggja mikla vinnu í það. Það var mjög áhugavert að sjá, það voru þarna fyrirlesarar frá stórum tískuhúsum eins og Stella McCartney og Alexander McQueenog þetta var miklu meira en ég bjóst við.“

Sumarlínan 2015 næst á dagskrá

Aðspurður hvort þátttakan á ráðstefnunni skili honum einhverju persónulega í auknum tengslum og tækifærum innan tískuheimsins segir Guðmundur að þátttaka í svona viðburðum sé alltaf jákvæð.

„Við erum búin að fá smá athygli frá ítalska Vogue í gegnum Twitter og Instagram. Það hjálpar eitthvað. Þetta er svo lítill bransi þannig lagað, maður kynnist einhverju fólki og svo gerist þetta bara smám saman.“

Mikið hefur verið um að vera hjá Guðmundi undanfarið, eftir RFF tók hann þátt í norræna tískutvíæringnum í Frankfurt, en sú sýning stendur enn. „Þetta er svona lokahnykkurinn á þessari törn, sem er búin að vera mikil. Nú er bara að byrja að vinna í sumarlínunni fyrir næsta ár.“

Sjá nánar á vef Copenhagen Fashion Summit

Hluti af haustlínu JÖR var sýndur á Copenhagen Fashion Summit …
Hluti af haustlínu JÖR var sýndur á Copenhagen Fashion Summit í Óperuhúsinu í Kaupmannahöfn í dag. Ljósmynd/JÖR
Guðmundur Jörundsson að lokinni sýningunni í Kaupmannahöfn í dag.
Guðmundur Jörundsson að lokinni sýningunni í Kaupmannahöfn í dag.
Frá sýningu á haustlínu JÖR 2014 á RFF í lok …
Frá sýningu á haustlínu JÖR 2014 á RFF í lok mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Frá sýningu á haustlínu JÖR 2014 á RFF í lok …
Frá sýningu á haustlínu JÖR 2014 á RFF í lok mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert