Hæstiréttur þyngdi refsingu Bjarna

Bjarni Ármansson
Bjarni Ármansson mbl.is/G.Rúnar

Hæstiréttur hefur dæmt fjárfestinn Bjarna Ármannsson í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum. Bjarna var einnig gert að greiða tæpar 36 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns og áfrýjunarkostnaðar. Bjarni var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Bjarni var sakfelldur fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2007, 2008 og 2009 vegna tekjuáranna 2006, 2007 og 2008. Verulegur hluti þeirra tekna sem um ræðir voru hagnaður vegna sölu á hlutabréfum í Sjávarsýn ehf.

Fyrir héraðsdómi bar Bjarni því meðal annars við að hann hafi talið að starfsmenn Glitnis hefðu haldið eftir og staðið skil á fjármagnstekjuskatti vegna viðskiptanna, en að hann hafi þó ekki kannað það sérstaklega. Þá segir: „Ákærði er fyrrum forstjóri bankans, en hefur starfað sem fjárfestir eftir starfslok þar. Í ljósi fyrri stöðu hans og starfsreynslu á þessu sviði hefði mátt vænta að hann þekkti til þess hvernig framkvæmdinni var háttað að þessu leyti innan bankans. Hvað sem því líður er óumdeilt að ákærði gerði ekki grein fyrir tekjum sínum vegna viðskiptanna á skattframtölum.“

Brotið var ekki virt Bjarna til ásetnings og hefur Bjarni greitt að fullu opinber gjöld, samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, auk álags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert