Árangurinn umfram væntingar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir stöðuna í íslensku efnahagslífi betri en hann þorði að vona þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við stjórnartaumunum fyrir ári. Hagvöxtur hafi tekið að aukast eftir að ný ríkisstjórn tók að innleiða jákvæða hvata.

„Ég er náttúrulega alveg gríðarlega kátur yfir því að stóru málin séu að klárast. Skuldamálin eru að klárast eftir fimm ára baráttu. Svo er fjölmargt annað sem er enn þá betra en maður hefði þorað að vona eftir þetta fyrsta ár.

Hagvöxtur tók strax við sér í fyrra haust og menn hafa verið að uppfæra spár um hagvöxt til hækkunar. Hann verður núna einhver sá mesti í Evrópu og sá mesti sem hefur verið á Íslandi í mörg ár. Verðbólga er farin niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans [sem er 2,5%] í aðeins annað skipti frá því að þau mörk voru tekin upp [27. mars 2001] og í fyrsta sinn sem hún helst þar í nokkra mánuði.

Það hafa orðið til fjögur þúsund ný störf á þessu eina ári. Það eru ein 10 störf á dag, eða hátt í 17 störf fyrir hvern virkan dag frá því ríkisstjórnin tók við. Atvinnuleysi fer áfram minnkandi. Kaupmáttaraukning stefnir í að verða líklega sú mesta í Evrópu, það sem af er þessu kjörtímabili. Þannig að allir þessu helstu mælikvarðar á árangur ríkisstjórnar eru betri en maður hefði þorað að vona.“

Sköpuðu jákvæða hvata

- Rekurðu þessa þróun fyrst og fremst stöðu til verka ykkar frá því að þið tókuð við stjórnartaumunum?

„Já. Menn geta bara borið þetta saman við stöðuna áður og sjá þá til dæmis að hagvöxturinn fer af stað strax í fyrrahaust, þegar menn öðlast aftur trú á framtíðina, þegar það skapast meiri stöðugleiki. Þegar menn horfa fram á að það sé verið að innleiða jákvæða hvata, í staðinn fyrir hindranir í efnahagslífinu.

Verðstöðugleikinn er afleiðing af því að það hefur gengið vel í hagstjórninni. En auðvitað eiga aðilar vinnumarkaðarins sinn þátt í því og ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að ná mönnum saman, að skapa sem víðtækasta sátt með því að allir fjárfesti í einhverri sameiginlegri framtíðarsýn, í trausti þess að ef allir vinni saman muni það skila árangri fyrir alla í framhaldinu. Nú hafa 98% félagsmanna, eða þar um bil, hjá verkalýðsfélögum á almennum vinnumarkaði samþykkt kjarasamninga,“ segir Sigmundur Davíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert