Heildaraukning erlendrar kortaveltu hér á landi í apríl var næstum 6,7 milljarðar króna, sem er 29,1% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Hæstri upphæð var varið til gistiþjónustu eða liðlega 1,2 milljörðum. Álíka upphæð var varið í ýmsa sérhæfða ferðaþjónustu, eins og skoðunarferðir og þriðji hæsti útgjaldaflokkurinn var verslun, um 1 milljarður króna, segir í samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar um málið.
Meðaltals kortavelta á hvern erlendan ferðamann í apríl var um 112 þúsund krónur. Svisslendingar skera sig nokkuð úr þegar horft er til meðalkortaveltu á hvern ferðamann. Hver Svisslendingur keypti vörur og þjónustu fyrir að jafnaði 314 þúsund krónur með greiðslukortum hér á landi í apríl. Rússar eru í öðru sæti með meðalkortaveltu á hvern ferðamann uppá 213 þúsund krónur og Spánverjar í þriðja sæti með 168 þúsund krónur.
Greiðslukortavelta á hvern erlendan ferðamann í apríl var um 112.336 krónur, ef miðað er við komur erlendra ferðamanna til landsins í mánuðinum samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu. Útgjöld á hvern ferðamann voru álíka mikil í krónum talið og í apríl 2013. Nokkrar sveiflur eru í útgjöldum erlendra ferðamanna eftir mánuðum eins og kemur fram í súluritinu hér að ofan.
Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta.
Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaiðnaðar. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum en ekki eftir uppgjörstímabilum og er samtalan því eilítið frábrugðin þeim gögnum sem Seðlabankinn birtir.
Kortavelta útlendinga sem kaupa farmiða eða pakkaferðir til Íslands frá heimalandi sínu eru ekki meðtaldar nema kortaveltan fari í gegnum íslenska færsluhirða. Þannig eru erlendar greiðslur vegna flugferða hingað til lands og greiðslur til erlendra ferðaskrifstofa eða annarra milliliða ekki meðtaldar. Þá eru úttektir á reiðufé úr hraðbönkum ekki meðtaldar.