Umfjöllun um 365 varð að dómsmáli

Reynir Traustason og Ingi Freyr Vilhjálmsson.
Reynir Traustason og Ingi Freyr Vilhjálmsson. mbl.is/Þórður

Dómsmál sem 365 miðlar höfðuðu gegn annars vegar ritstjóra DV og hins vegar blaðamanni sama miðils vegna umfjöllunar um rekstur 365 miðla voru tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Krafist er að ritstjórinn og blaðamaðurinn greiði samtals átta milljónir króna í bætur vegna umfjöllunarinnar.

Málin eru tvö. Í fyrra lagi var Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, stefnt vegna svonefnds sandkorns sem birtist 6. október 2013 undir fyrirsögninni Blaðra Jóns ÁsgeirsÍ greinarkorninu segir meðal annars að efnahagur 365 miðla hafi verið blásinn upp eins og blaðra og að stór hluti eigna samsteypunnar sé ímynduð viðskiptavild.

Seinna málið er á hendur Inga Frey Vilhjálmssyni, blaðamanni DV, vegna umfjöllunar í sama mánuði um rekstrarerfiðleika 365 miðla og verðmæti eigna félagsins. Var að hluta til byggt á ársreikningi 365 miðla. Eftir að stefnurnar komu fram í nóvember 2013 benti DV á það í grein að aðrir fjölmiðlar hefðu einnig skrifað upp úr ársreikningi 365 án þess að þeim hefði verið stefnt. Meðal annars var vísað í umfjöllun mbl.is um ársreikninginn í því sambandi.

Krafist er ómerkingu tiltekinna ummæla í báðum málum, þess að Reynir og Ingi Freyr greiði fjórar milljónir hvor í bætur og að héraðsdómur dæmi þá til refsingar.

Við fyrirtökur í málunum í morgun fór fram gagnaframlagning auk þess sem rætt var um framhald meðferðar málsins fyrir dómstólnum. Þannig er gert ráð fyrir að aðalmeðferð í málunum fari fram í janúar 2015.

365 miðlar.
365 miðlar. mbl.is/Heiðar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert