Prinsessunni er annt um norðrið

Vel fór á með íslensku forsetahjónunum og sænska kóngafólkinu á Bessastöðum í morgun þar sem opinber heimsókn Viktoríu krónprinsessu og Daníels prins hófst með fundi og ávörpum Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands og Viktoríu sem segist hafa áhuga á alþjóðlegu samstarfi í málefnum Norðurslóða. 

Ólafur Ragnar rifjaði upp forn tengsl þjóðanna sem fjallað er um í Landnámu, þegar Garðar Svavarsson, einn fyrsti landneminn sem var sænskur, tók hér land og reisti hús á Húsavík en þangað verður einmitt  haldið á morgun og farið í hvalaskoðun. Þá sagði hann gesti sína fá gott tækifæri til að kynna sér sköpunarkraftinn í íslenskri menningu en þeir sækja einnig málstofu um málefni Norðurslóða í Háskólanum á Akureyri á morgun.

Viktoría ræddi um aukna samvinnu þjóðanna tveggja og ekki síst í viðskiptum en hún hefur sjálf mikinn áhuga málefnum norðurslóða og alþjóðlegri samvinnu þar. Prinsessan sagðist hlakka til heimsóknarinnar til Akureyrar en þar eru Svíar eru þátttakendur í verkefnum Norðurskautsráðsins sem hún kynntist í síðustu opinberu heimsókn sinni hér á landi árið 2004 þegar hún kom hingað ásamt foreldrum sínum.

Eftir athöfnina var haldið í Hörpu þar sem gestirnir skoðuðu tónlistarhúsið en heimsókn þeirra lýkur á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert