„Tóbaksfyrirtækin komin í kannabisspunann“

AFP

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ, segir að tóbaksfyrirtæki haldi uppi áróðri fyrir kannabisneyslu. Hann segir að spuni fyrirtækjanna um kannabisefni og skaðleysi þeirra sé rekinn með þeim hætti að hann valdi verulegum alþjóðlegum áhrifum og setji svip á þjóðfélagsumræðuna hér á landi. 

Þetta kemur fram í pistli sem birtur er á vef SÁÁ.

Hann segir að í „umræðunni um kannabisefni er ekki bara verið að fást við unglinga sem af þekkingarleysi eru að skrökva eða við fjölmiðlun sem leitar æsifrétta sem seljast í stað sannleikans því tóbaksfyrirtækin eru komin í kannabisspunann. Þessi fyrirtæki halda uppi áróðri fyrir kannabisneyslu og hugsa sér gott til glóðarinnar í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem hafa leyft framleiðslu, sölu og neyslu kannabisefna til svokallaðra lækninga. Þetta gera ríkin í óþökk alríkisstjórnarinnar.“

Hann bætir við að engin læknasamtök hafi óskað eftir slíkri notkun kannabisefna og engar tvíblindar slembiúrtaksrannsóknir bendi til þess að kannabisefni bæti nokkurn sjúkdóm. Kannabisefni geti að vísu slegið á viss sjúkdómseinkenni en í slíkum tilvikum séu til mun ódýrari og kröftugri lyf sem geri það beinlínis rangt og hættulegt að reyna kannabisreykingar. 

„Þetta vita tóbaksfyrirtækin auðvitað en sjá í hillingum pakka af vel vöfðum kannabisvindlingum renna út úr verksmiðjunum sínum í milljörðum. Það er mikið í húfi og spuni tóbaksfyrirtækjanna um kannabisefni og skaðleysi þeirra er rekinn með þeim hætti að hann veldur verulegum alþjóðlegum áhrifum og setur svip á þjóðfélagsumræðuna hér. Það er því full ástæða til að standa fast í lappirnar í kannabisforvörnum og tryggja kannabissjúklingunum áfram meðferð á Sjúkrahúsinu Vogi,“ skrifar Þórarinn.

Hann bendir ennfremur á kannabisfíkn sé æði algeng meðal ungra Íslendinga en sjúkdómurin hefur herjað á Íslendinga frá árinu 1968. Hann bendir á að á síðustu 23 árum hafi komið 5.393 einstaklingar á Sjúkrahúsið Vog sem greindust kannabisfíklar. 2.291 þeirra var yngri en 20 ára.

Þórarinn segir ennfremur, að þó að ástandið í kannabismálunum sé óviðunandi hafi kannabisreykingar Íslendinga staðið í stað undanfarin átta ár. 

„Í fyrsta sinn frá árinu 1968 virðist ástandið komið í jafnvægi. Við þessar aðstæður er mjög varasamt að auðvelda með einhverjum hætti aðgengi að kannabisefnum eða auka ásókn í þau. Ef við slökum á forvörnum og meðferð og leyfum óátalið að fólk haldi uppi ósönnum áróðri um að kannabisefni séu hættulaus og nauðsynleg til lækninga erum við að auka ásókn í efnin. Ef við lögleyfum kannabisreykingar með einhverjum hætti erum við að auka aðgengi að þeim og fjölga kannabissjúkum þegar til lengri tíma er litið,“ skrifar Þórarinn á vef SÁÁ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert