Greina flöskuhálsa í ferli EES-mála

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra Kristinn Ingvarsson

Forsætisráðherra hefur skipað stýrihóp um framkvæmd EES-samningsins. Markmiðið er að greina flöskuhálsa í ferli EES-mála frá upphafi þeirra á vettvangi Evrópusambandsins til loka við innleiðingu í landsrétt og er hópnum ætlað að skila tillögum til úrbóta varðandi einstaka þætti ferlisins. Á þannig að tryggja að framkvæmd EES-samningsins sé sem skilvirkust.

„Staða mála nú er sú að alls eru hátt í 700 lagagerðir sem bíða upptöku í EES-samninginn. Á sama tíma er halli á innleiðingu tilskipana 3,1% og fjöldi óinnleiddra reglugerða með mesta móti þótt tekist hafi að bæta nokkuð úr að undanförnu.

Ein af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin samþykkti að grípa til var að setja á fót stýrihóp um framkvæmd EES-samningsins undir forystu forsætisráðuneytis með þátttöku fulltrúa ráðuneyta og skrifstofu Alþingis. Markmiðið er að greina flöskuhálsa í ferli EES-mála frá upphafi þeirra á vettvangi Evrópusambandsins til loka við innleiðingu í landsrétt.  Hópnum er ætlað að skila tillögum til úrbóta varðandi einstaka þætti ferlisins. Þannig sé framkvæmd EES-samningsins sem skilvirkust og um leið svigrúm skapað til að beina kröftum í auknum mæli að snemmgreiningu löggjafar á vettvangi EES og forgangsröðun þannig að gripið sé til samræmdra viðbragða í stærri hagsmunamálum.

Í stýrihópnum eiga sæti Páll Þórhallsson skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem gegnir formennsku í hópnum, Erla Sigríður Gestsdóttir sérfræðingur, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Hafdís Ólafsdóttir skrifstofustjóri, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Þorgeir Ólafsson sérfræðingur, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sigurbergur Björnsson skrifstofustjóri, tilnefndur af innanríkisráðuneyti, Kjartan Ingvarsson sérfræðingur, tilnefndur af umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir skrifstofustjóri, tilnefnd af velferðarráðuneyti, Bryndís Kjartansdóttir skrifstofustjóri, tilnefnd af utanríkisráðuneyti, og Sesselja Sigurðardóttir nefndarritari utanríkismálanefndar (EES-mál), tilnefnd af skrifstofu Alþingis,“ segir í tillkynningu frá forsætisráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert