Hungursneyð blasir við fjórum milljónum íbúa Suður Súdan í næsta mánuði, að því er fram kemur í viðvörun frá breskum hjálparstofnunum. Styrktartónleikar á vegum UNICEF verða haldnir í Hörpu í kvöld og hefjast klukkan 21.
Tónleikarnir eru til styrktar börnum í Suður-Súdan, en þar ríkir gríðarlegt neyðarástand, og hefur UNICEF lýst yfir hæsta neyðarstigi á svæðinu. Tónleikarnir eru liður í neyðarsöfnun sem samtökin á Íslandi hófu nýlega og mun hver einasta króna af miðasölu renna óskipt til UNICEF.
Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, sinnir nú hjálparstarfi í Suður-Súdan og segir ástandið slæmt í samtali við Morgunblaðið í dag. „Þetta er komið langt yfir hættumörk og það eru mörg vannærð börn í landinu. Það er augljóst að stríðið hefur haft gríðarleg áhrif,“ segir Stefán, en hann hefur nú verið í landinu í viku. Stefán segir stærsta vandamálið vera næringarástand. „Við erum aðallega að einblína á næringarástand. Síðastliðna viku höfum við náð til um 20% þeirra sem við teljum okkur geta náð til, en við stefnum að því að ná til 75%.“
Forseti Suður-Súdan Salva Kiir varar við því að ástandið hafi aldrei verið jafn slæmt í landinu en yfir ein milljón hefur flúið heimili sín frá því átök brutust út milli ólíkra hópa í desember í fyrra. Þúsundir hafa látist í átökunum sem hófust með deilu tveggja stjórnmálamanna, forsetans og Riek Machar sem áður var varaforseti landsins. Átökin hafa síðan stigmagnast og eru orðin að átökum milli þjóðarbrota.
Sameinuðu þjóðirnar hafa yfir að ráða um 40% af því fjármagni sem þarf til þess að koma í veg fyrir hungursneyð á næstu vikum en enn vantar yfir milljarð Bandaríkjadala til þess að koma í veg fyrir að milljónir verði hungursneyð að bráð.
Á mánudag lýstu samtökin læknar án landamæra því yfir að ástandið í Suður-Súdan væri það versta sem þau hefði séð árum saman.