Esjan er óvenju græn í ár og hefur sennilega ekki verið eins gróin í átta aldir það minnsta, ef nokkurn tímann, að sögn Páls Bergþórssonar veðurfræðings. „Þetta er árangur af aukinni hlýnun og jafnframt kemur til viðbótar þessi góða væta sem er núna í vor og sumar,“ sagði Páll í samtali við mbl.is í dag.
Þá telur Páll að fleiri svæði njóti gróðursældar í ár. „Ég hef líka tekið eftir því að í Hafrahlíðinni og á Úlfarsfelli er óvenju mikið gróið. Ég held að það sé nokkuð almennt að útjörðin sé að verða grónari en hún hefur verið.“
Páll segir að leita þurfi margar aldir aftur í tímann til að finna hlýindaskeið sambærilegt við síðustu ár, en auknum koltvísýring í loftinu hafi fylgt mikil hlýindi.
„Ég held að hér hafi verið álíka hlýtt fyrstu þrjár aldirnar – á þjóðveldisöld – og meira að segja hef ég grun um að versnandi veðurfar á þrettándu öld hafi valdið því að siglingar hingað lögðust nánast af og þess vegna hafi menn gert Gamla sáttmála um að tryggja sér skipakomur á hverju ári.“
Páll vísar til þess að á þrettándu og fjórtándu öld hafi jöklarnir farið vaxandi og hafís aukist. „Þess vegna tel ég að síðustu átta hundruð ár sé mjög ólíklegt að það hafi komið eins gott hlýindaskeið og núna.“
Það var kannski helst á þjóðveldisöld sem Esjan var svona græn.“