„Ofbeldi að skemma húsið“

Soffía Vagnsdóttir - Soffía telur sorglegt að svona hafi farið …
Soffía Vagnsdóttir - Soffía telur sorglegt að svona hafi farið fyrir húsinu því flest eldri hús í Bolungarvík hafi verið rifin. Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta er afskaplega léleg afsökun fyrir svona ofbeldisaðgerð,“ sagði Soffía Vagnsdóttir, íbúi í Bolungarvík sem hafði lagt fram tilboð til kaupa á Aðalstræti 16, í samtali við mbl.is. Húsið, sem var byggt 1909, er friðað en mikil skemmdarverk voru unnin á því aðfaranótt mánudags.

Í dag steig Valdi­mar Lúðvík Gísla­son, íbúi í Bolungarvík, fram og játaði verknaðinn. Hann sagðist í samtali við mbl.is hafa ákveðið að taka málin í eigin hendur vegna þess að staðsetning hússins skapaði slysahættu. með vinnuvél aðfaranótt mánudags. Valdimar fór því með vinnuvél í skjóli nætur og braut húsið niður að hluta. 

Deiliskipulag var ókomið

„Ég kalla það ekkert annað en ofbeldi að ganga yfir eigur með þessum hætti í þeirri viðleitni að fá sínu fram. Það er ekki í höndum einstaklinga að ganga yfir eigur þótt okkur finnist hlutir ljótir eða hættulegir eða almennt ekki eins og við viljum hafa þá,“ sagði Soffía.

Valdimar taldi húsið ómerkilegt og staðsetningu þess skapa slysahættu þar sem það þrengdi að götunni. Bæjaryfirvöld hafa undanfarna mánuði unnið að deiliskipulagi fyrir reitinn.

„Sá sem játaði á sig verknaðinn talar um aðgengi að ráðhúsinu og fleira en það er einmitt hluti af því sem er verið er að leysa í deiliskipulaginu. Bæjarfélagið er að vinna að deiliskipulagi í kringum þetta hús með það markmið að vernda það einsog lögin gera ráð fyrir.“

Menningarleg verðmæti

„Það eru svo fá gömul hús eftir í Bolungarvík, því flest þeirra hafa verið rifin. Sagan hefur glatast mjög mikið, því með sögu húsanna glatast ákveðin samfélagssaga,“ sagði Soffía, sem er að eigin sögn mikill talsmaður þess að gömul hús séu varðveitt.

Soffía var ein tveggja sem lögðu fram tilboð í húsið. „Við gerðum tilboðið aðallega í þeirri viðleitni að vernda húsið. Okkur langaði að skapa húsinu tilgang. Við vildum draga fram landnámssögu Bolungarvíkur og höfðum hugsað okkur að reyna að nýta húsið í tengslum við það í einhverskonar safn.“

Soffía hefur beðið í marga mánuði eftir svörum við tilboðinu.

„Margir bæir hafa áttað sig á menningarlegu verðmæti þessa þáttar samfélags okkar en Bolvíkingar hafa því miður komið auga of seint á þessi verðmæti. Sem betur fer eru komin lög í landinu sem hjálpa okkur í þessu tilliti.“

Aðalstræti 16 í Bolungarvík - Vinna að deiliskipulagi fyrir reitinn …
Aðalstræti 16 í Bolungarvík - Vinna að deiliskipulagi fyrir reitinn hafði staðið í nokkra mánuði þegar skemmdarverkið átti sér stað. Af vef Bæjarins besta
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert