Bifröst í Borgarfirði er notalegur áfangastaður og þar er hægt að staldra við ýmislegt, t.d. geta börnin komist að því hvað þau eru þung á tunglinu á samtíðarsýningu um íslenskt atvinnulíf sem hefur verið sett upp í Háskólanum á Bifröst.
„Með sýningunni viljum við auka við afþreyingu inni á háskólasvæðinu því það er opið og lifandi svæði sem frábært er fyrir fólk að heimsækja og skoða. Þarna eru gamlar fallegar byggingar, veitingastaður, fjölmargar gönguleiðir í boði og golfvöllur,“ segir María Ólafsdóttir, sýningarstjóri viðamikillar sýningar sem sett hefur verið upp á Bifröst og heitir Sýning um íslenskt atvinnulíf. „Hugmyndin að þessari sýningu kemur frá skólastjórnendum við Háskólann á Bifröst. Á sýningunni eru þrjátíu og fimm fyrirtæki í landinu og starfsfólk þeirra kynnir sögu fyrirtækisins og starfsemina. Þetta eru fyrirtæki af mörgum sviðum, landbúnaður, sjávarútvegur, lyfjafyrirtæki, fjölmiðlafyrirtæki, þjónustufyrirtæki og fleira. Þetta er lifandi sýning og því geta fyrirtæki haldið áfram að bætast í hópinn. Þetta er samtímasýning sem segir frá því sem er að gerast núna í þessum fyrirtækjum en einnig birtist þarna framtíðarsýn fyrirtækjanna.“
Á sýningunni eru veggspjöld þar sem einblínt er á hvaða verðmæti fyrirtækið skapar, hvað það geri fyrir viðskiptavini sína og svo framvegis. Textinn er bæði á íslensku og ensku. „Hugmyndin er að gefa jákvæða sýn af atvinnulífinu og sýna að þar er margt gott að gerast og að framtíðin er björt. Við erum líka með vegg þar sem er eldra myndefni, til dæmis frá Vífilfelli, sem er mjög skemmtilegt. Einnig erum við með stóran skjá þar sem allskonar myndbönd frá fyrirtækjunum eru sýnd og við erum einnig með ýmislegt til sýnis sem gert er úr íslensku hráefni.“
María segir að sýningin sé fyrir alla fjölskylduna og þar sé líka gert ráð fyrir börnum. „Marel er með skemmtilegt horn þar sem börn geta séð hvað þau eru þung á tunglinu og einnig geta þau fundið út hvað þau eru sterk, hvort þau eru jafn sterk og Jón Páll, en það gera þau með því að toga eins langt og þau geta í ákveðna þyngd. Auk þess er skemmtileg þraut fyrir krakka.“
María segir að í haust sé ætlunin að fara með sýninguna inn í bæði grunn- og framhaldsskóla. „Við ætlum að byrja í skólunum hér í nærumhverfinu, Borgarnesi, Akranesi og Snæfellsbæ. Þá förum við með afrit af veggspjöldum sýningarinnar inn í skólana og bjóðum þeim að setja upp einskonar viku atvinnulífsins. Þessu tengt getum við verið þeim innanhandar með skipulagningu ýmiskonar viðburða og verkefna, til dæmis fengið fólk úr fyrirtækjunum til að vera með skemmtilega fyrirlestra. Einnig getum við komið að einhverju sem skólinn er þegar með í farvatninu. Ýmsar leiðir eru opnar í þeim málum. Með slíkum kynningum geta nemendur vitað betur hvað er að gerast í íslensku atvinnulífi, hvaða tækifæri þeir hafa, hvað þeir þurfi að læra til að fá hin og þessi störf og svo framvegis. Við viljum sýna þeim möguleikana.“
María segir að sýningin sé komin til að vera, hún verði opin allan ársins hring. „Í haust þegar skólastarfið fer aftur af stað getum við til að mynda tekið á móti hópum til að skoða sýninguna og tengt það ýmsum verkefnum.“