Setti Íslandsmet í 36 stiga hita

Birgir Már Ragnarsson á hjólaspretti.
Birgir Már Ragnarsson á hjólaspretti.

Birgir Már Ragnarsson bætti Íslandsmet í járnkarli í gær þegar hann kom í mark á 9 klukkustundum, 24 mínútum og 24 sekúndum. Fyrra met átti Karen Axelsdóttir, þjálfari Birgis, en á þeim munaði einungis 7 sekúndum. Birgir Már fékk þá hugdettu fyrir tveimur árum að byrja að æfa sig fyrir járnkarl og árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

Í járnkarli eru syntir 3,8 kílómetrar, þá eru hjólaðir 180 kílómetrar og að lokum er hlaupið heilt maraþon eða 42,2 kílómetrar.

„Fyrst og fremst var frábært að ná að slá metið hennar Karenar. Hún var þjálfarinn minn svo að þetta var súrsætt en það var kannski kominn tími á að slá þetta,“ segir Birgir en met Karenar er frá árinu 2011. „Ég var búinn að leggja mjög hart að mér og æfa vel og var í mjög góðu formi en aðstæður voru alveg hrikalega erfiðar.“

Erfiðustu aðstæður í 30 ára sögu keppninnar

Birgir keppti í Roth í Þýskalandi í miklum hita og að sögn forsvarsmanna keppninnar voru þetta erfiðustu aðstæður í 30 ára sögu keppninnar í Roth. „Í brautinni var 36 stiga hiti og þar af leiðandi voru tímarnir í ár mun hægari en hafa verið. Ég kom til Þýskalands nokkrum dögum áður til þess að venjast hitanum og ég vissi strax að það yrði mjög þungt að fara út í þessum hita og reyna að halda vökva og næringu í líkamanum.“

Hann segir að hitinn hafi verið óbærilegur. „Þú ert bara undir sólinni allan tímann og færð engan skugga svo að sólin skín á húðina og þú getur ekki klætt þetta af þér þannig að sólin er bara að baka þig. Líkaminn hitnar mjög mikið og á hjólinu þarftu að drekka fleiri fleiri lítra. Það er mjög stórt verkefni að halda næringunni og ná að drekka nógu mikið,“ segir Birgir.

„Þegar þú missir svona mikinn vökva fellur blóðþrýstingurinn. Á hlaupunum var drykkjarstöð á tveggja kílómetra fresti og þetta snerist í raun um að komast á næstu stöð. Þar var ís og kaldir svampar þannig að ég stoppaði á hverri einustu stöð og kældi mig. Þá var púlsinn hjá mér í 180 en svo lækkaði hann alveg niður allan tímann fram að næstu drykkjarstöð,“ segir Birgir.

Lenti í 58. sæti af um 5.500 keppendum

Birgir segir að hitinn hafi mest áhrif í hlaupinu en á hjólinu hjálpar vindurinn mikið til við kælingu. „Það reynir samt mikið á því það gufar svo mikið magn af vatni úr líkamanum. En ég náði góðum hjólatíma, var í þrítugasta sæti af öllum í þrautinni og það voru 100-200 atvinnumenn og 5.500 keppendur sem tóku þátt. Ég var númer 70 í hlaupunum og það finnst mér í rauninni meira markvert í þessu, að ég hafi lent í 58. sæti af öllum keppendum. Ég ætlaði að fara þrautina undir 9 klukkustundum, það var markmiðið, en aðstæður leyfðu það ekki,“ segir Birgir.

Að sögn Birgis kom honum mest á óvart hversu margir þátttakendur voru í þrautinni, en þá voru einnig um 300 þúsund áhorfendur við brautina. „Þarna voru bestu þríþrautarmenn í heimi, bæði í karla- og kvennaflokki,“ segir Birgir.

Var varla syndur fyrir tveimur árum

Birgir segist hafa fengið þá flugu í höfuðið fyrir tveimur árum að byrja æfingar fyrir járnkarl, en hann er fæddur árið 1974. „Ég var bara eins og flestir í handbolta og fótbolta sem krakki. Svo plataði félagi minn, Heiðar Már Guðjónsson, mig til þess að koma út að hlaupa með sér þannig ég byrjaði að hlaupa. Svo voru aðrir félagar mínir að hjóla og ég byrjaði að hjóla með þeim. Ég hugsaði því með mér að fyrst ég væri byrjaður að hlaupa og hjóla hvort ég ætti ekki að bæta við sundinu svona í gamni,“ segir Birgir sem lýsir sér sem miðaldra skrifstofumanni í samanburði við þá atvinnumenn sem tóku þátt í þolrauninni.

„Ég var varla syndur þegar ég byrjaði og komst ekki yfir 50 metra sundlaug í skriðsundi án þess að stoppa. En svo datt mér í hug að taka þátt í járnkarli og keppti í fyrsta skipti í fyrra. Ég fór nær Íslandsmetinu í fyrstu tilraun þannig að ég sá að þetta lá ágætlega fyrir mér og þetta var krefjandi verkefni. Þetta var bara einhver hugdetta, ekkert meira á bak við það,“ segir Birgir sem hefur æft 6 daga vikunnar síðustu 8 mánuði fyrir keppnina.

Framhaldið er að mestu óráðið hjá Birgi en hann mun taka þátt í fjallahjólakeppninni Cape Epic í Suður-Afríku í mars, en henni hefur verið lýst sem erfiðustu hjólakeppni í heimi. „Ég ætla svo að taka Tokyo maraþonið líka en svo sé ég til með vorinu hvort ég keyri mig upp í aðra keppni. Þá myndi ég líklega stefna á heimsmeistaramótið í járnkarli á Hawaii,“ segir Birgir.

Árangur Birgis í keppninni.
Árangur Birgis í keppninni.
Hin 83 ára gamla Madonna Buder tók þátt í keppninni …
Hin 83 ára gamla Madonna Buder tók þátt í keppninni í Roth í gær. DANIEL KARMANN
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert