Yfir 20 stiga hiti. Skýlaus himinn. Nánast logn. Þannig er veðrið á Egilsstöðum. „Það er stappað á tjaldstæðinu hjá okkur, allt fullt,“ segir tjaldvörður. „Það eru allir á leiðinni austur.“
„Ég er búin að vera á vakt síðan tvö í dag og núna er ég byrjuð að þurfa að vísa fólki frá því að það er bara allt stappað,“ segir Agnes Lilja Jósefsdóttir, tjaldvörður á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum. „Hér er tjald við tjald og húsbíll við húsbíl.“ Hún segir ástandið svipað á tjaldsvæðunum í Höfðavík og Atlavík.
Til að bregðast við ásókninni var brugðið á það ráð að fá lánað tún við húsnæði skattstjóra. „Það er búið að slá þar fyrir okkur og einhverjir farnir að tjalda.“
Agnes segir ekki erfitt að lýsa veðrinu í dag: „Það er dásemdar veður og verður áfram, að minnsta kosti fram á miðvikudagskvöld, þá er verið að spá einhverri smá rigningu.“
Agnes segist í dag m.a. hafa tekið á móti fólki frá Þorlákshöfn. „Þau sögðu mér að þau hefðu vaknað í morgun, það hafi verið rigning. Þau ákváðu því að pakka niður og fara til Egilsstaða. Það eru allir á leiðinni austur.“
Íslendingum hefur heldur fjölgað á tjaldsvæðinu undanfarna daga. Þeir höfðu haft hægt um sig á meðan HM í knattspyrnu var í gangi.
„Og þeir eru greinilega að drífa sig bara í sólina,“ segir Agnes hlæjandi. Hún segir mjög gaman að vinna á dögum sem þessum. „Það eru allir í góðu skapi. Allir glaðir.“
Frétt mbl.is: Nánast óvinnufært vegna hita