Besti borgarinn á KEX hosteli

Frelsisborgarinn á KEX Hostel þykir sá besti í Reykjavík.
Frelsisborgarinn á KEX Hostel þykir sá besti í Reykjavík. Ljósmynd/KEX

Vesturbæjarlaug er besta sundlaugin í Reykjavík. Besta hamborgarann færðu á KEX hosteli og Listasafn Íslands er besta listasafnið. Þetta er mat tímaritsins Reykjavík Grapevine í nýútkomnu hefti blaðsins, en álitsgjafar blaðsins hafa frá árinu 2009 valið það besta í Reykjavík.

„Okkur fannst vanta svona viðurkenningar,“ segir Haukur S. Magnússon, ritstjóri Reykjavík Grapevine. „Fyrsta árið keyrðum við þetta bara eftir því sem okkur fannst. Síðan þá höfum við opnað sérstakt netfang, bestof@grapevine.is, þar sem við hvetjum fólk til þess að láta okkur vita ef það er eitthvað gott sem við erum að missa af,“ segir Haukur og bætir við að blaðið fái einnig mikið af ábendingum í gegnum Facebook.

„Svo höldum við stóran fund þar sem við fáum fólk af öllum aldri, bæði Íslendinga og útlendinga, og ræðum hvern flokk fyrir sig. Nokkurs konar pallborðsumræður,“ útskýrir Haukur.

Hvatning fyrir þá sem eru að gera það gott

„Ég get sagt fyrir mig sem kúnna ef að ég er í annarri borg og ég sé að staðirnir eru að stæra sig af því að einhver kunni að meta þá, hvort sem þeir eru með Tripadvisor-límmiða eða annað, þá er maður líklegri til þess að gefa þeim gaum,“ segir Haukur sem hugsar viðurkenningarnar sem hvatningu til þess að halda áfram að gera góða hluti.

Að mati tímaritsins fæst besti grænmetisborgarinn á Búllunni, en besti „borgari með meiru“ er fáanlegur á Roadhouse. Bestu pítsuna er hægt að panta á nafnlausa pítsustaðnum að Hverfisgötu 12, en Haukur segir bökurnar þar gerðar af vandvirkni, metnaði og ævintýragirni.

Í Nauthólsvík er best að halda sig á rigningardegi og Húrra er besti nýi barinn í Reykjavík. Þá heldur tímaritið einnig lista yfir Reykjavíkurstofnanir, en það eru staðir sem teljast hafa sannað sig svo rækilega á sínu sviði að þeir hafa myndað fastan sess í borgarlífinu. 

Reykjavíkurstofnanir blaðsins eru: Kaffibarinn, Bæjarins bestu, Ísbúð Vesturbæjar, Hornið, Mokka, Tíu dropar, Kolaportið, Bókin, Jómfrúin, Austur-Indíafjelagið, Brynja, Prikið og Sundhöll Reykjavíkur.

Hér má lesa meira um það besta í Reykjavík.

Haukur S. Magnússon, ritstjóri Reykjavík Grapevine.
Haukur S. Magnússon, ritstjóri Reykjavík Grapevine. HAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert