Blóð, sviti, tár og gubb í Ermarsund

Sigrún Þuríður Geirsdóttir lauk sundinu og steig á land í …
Sigrún Þuríður Geirsdóttir lauk sundinu og steig á land í franska bænum Wissant. Þær Harpa Hrund, Helga, Corinna og Sædís Rán fylgdu á eftir og fögnuðu með henni.

„Þetta voru mikil átök en mjög gaman. Sérstaklega eftir á,“ segir Harpa Hrund Berndsen, ein fimm kvenna í Yfirliðinu svo kallaða, sem náði þeim árangri í gær að synda boðsund yfir Ermarsund frá Englandi til Frakklands.

Þær gáfu allt í sundið, blóð, svita, tár og gubb, því sjóveiki hrjáði þær talsvert á leiðinni. Synt var til styrktar AHC-samtökunum á Íslandi, en AHC er sjaldgæfur taugasjúkdómur sem einkennist ef endurteknum, tímabundnum lömunarköstum hjá  börnum. 

Innan um höfrunga, marglyttur og flutningaskip

Ermasundið er 32 km í beinni loftlínu en á sundi yfir það getur leiðin orðið allt að 60 km vegna strauma. Yfirliðið synti leiðina á 13 tímum og 31 mínútu, en þær höfðu gert ráð fyrir 15 tímum og voru því ánægðar með árangurinn.

„Við lögðum af stað kl. 18 að enskum tíma og þurftum að synda alla nóttina. Það var svolítið sérstök tilfinning að hoppa út í um miðja nótt í kolniðamyrkri, maður var búinn að gleyma því hversu mikið myrkur getur orðið,“ segir Harpa Hrund.

Strangar reglur eru um hvernig boðsund yfir Ermarsund skal fara fram svo það sé tekið gilt. Þær stöllur máttu sem dæmi ekki hafa neitt hitaverjandi, heldur aðeins synda í venjulegum sundbolum, með eina sundhettu og ein gleraugu. Þær syntu klukkustund í senn hver og alltaf í sömu röð. Sú sem syndir má ekki snerta bátinn á meðan.

„Þegar ég synti minn fyrsta sprett voru höfrungar allt í kringum mig. Svo var líka svolítið merkilegt þegar þessi stóru skemmtiferðaskip og flutningaskip sigldu hjá, þá komu svakalegar öldur af þeim,“ segir Harpa Hrund. Ein úr hópnum lenti svo í mikilli marglyttutorfu á sundinu og brenndist á handlegg.

Ólýsanleg tilfinning á franskri strönd

Versta hindrunin var þó ósýnileg en hafði áhrif á þær allar, nefnilega sjóveikin.„Þegar leið á þá kom aðeins úfnari sjór og það kom upp talsvert mikil sjóveiki í hópnum. Það var erfitt þegar það kom að manni í röðinni og maður varð að hoppa ofan í, þótt manni liði rosalega illa.“

Þrekraunin var þó þess virði því þegar landi var náð í franska bænum Wissant yfirtók gleðin allt annað. „Sigrún var sú sem landaði í Frakklandi, hún þurfti að snerta landið fyrst en svo máttum við fara á eftir henni þannig að við fögnuðum allar saman á ströndinni í Frakklandi. Tilfinningin, þegar við stóðum þarna á ströndinni, var ólýsanleg. Þannig að þetta var alveg frábært.“

Fimmmenningarnir sigldu svo til baka yfir Ermarsundið og safna nú kröftum í afslöppun í Englandi. „Við erum að næra okkur vel, því það var hægt að koma mjög litlu niður um borð í bátnum,“ segir Harpa Hrund og hlær.

Enn er hægt að styrkja söfnun Yfirliðsins fyrir ACH-félagið. Styrktarféð nýtist m.a. til að vinna að grunnrannsóknum auk þess að stuðla að kynningu á þessum sjaldgæfa sjúkdómi.

Reikningsnúmerið: 0303-26-7207

Kennitala: 030772-5719

Sundhópurinn Yfirliðið um borð í bátnum að lokinni þrekrauninni yfir …
Sundhópurinn Yfirliðið um borð í bátnum að lokinni þrekrauninni yfir Ermasundið, með strönd Frakklands í baksýn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert