Endurnýta tjónatæki tryggingarfélaga

Bjartmar Alexandersson, framkvæmdastjóri Grænnar framtíðar
Bjartmar Alexandersson, framkvæmdastjóri Grænnar framtíðar Mynd/Græn framtíð

Frumkvöðlafyrirtækið Græn framtíð hefur samið við tryggingafélagið Mondux í Noregi um endurnýtingu á smáraftækjum, sem viðskiptavinir skila inn vegna tjóna. Græn framtíð mun tryggja endurnýtingu á öllum smáraftækjum Mondux í Noregi, svo sem farsímum, spjaldtölvum, fartölvum og öðrum minni tækjum.

Græn framtíð hefur áður staðið fyrir landssöfnun farsíma hér á landi þar sem söfnunarpokum var komið inn á öll heimili landsins og fólk hvatt til þess að senda símana til endurnýtingar. 

„Samningurinn við Mondux í Noregi er afar stórt skref fyrir Græna framtíð og felur í sér aukin umsvif. Græn framtíð er var afar lítið fyrirtæki í heimi endurnýtingar en við höfum vaxið afar hratt. Ástæðan fyrir þessum vexti er að við leggjum gífurlega mikla áherslu á gagnaöryggi og umhverfisvernd í okkar starfsemi,“ segir Bjartmar Alexandersson, framkvæmdastjóri Grænnar framtíðar í fréttatilkynningu og bætir við:

„Viðskiptavinir okkar eru því öryggir um að tæki þeirra enda ekki á ruslahaugum. Þess í stað eru tækin endurnýtt í varahluti eða fara aftur í notkun eftir viðgerð, til dæmis í þriðja heims ríkjum.“

Fyrirtækið var stofnað árið 2009 og sérhæfir sig í endurnýtingu á smáraftækjum. 

Sjá frétt mbl.is: Vilja fá gömlu, rykföllnu símana

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert