Nafnið of langt fyrir fréttatilkynningu

Bessastaðir.
Bessastaðir. Brynjar Gauti

„Fullt nafn [og ávarp] konungsins er hans hátign Seri Paduka Baginda Almu’tasimu Billahi Muhibbuddin Tuanku Alhaj Abdul Halim Mu’adzam Shah Ibni Almarhum Sultan Badlishah, og starfsheitið er Yang di-Pertuan Agong XIV af Malasíu. Einfaldara var talið vera fyrir frágang fréttatilkynningar að tilgreina starfsheiti konungs fremur en nöfnin sextán en þau voru að sjálfsögðu öll við upphaf bréfs forseta til hans,“ segir Örnólfur Thorsson forsetaritari um fréttatilkynningu sem forsetaembættið sendi frá sér í gær.

Í tilkynningunni kemur fram að forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hafi sent samúðarkveðju „frá sér og íslensku þjóðinni til Willem-Alexander konungs Hollands og Yang di-Pertuan Agong konungs Malasíu,“ í kjölfar hraps farþegaþotu Malaysian Airlines í Úkraínu í seinustu viku þar sem 298 manns létu lífið. 

Glöggur lesandi mbl.is benti hinsvegar á að Yang di-Pertuan Agong er ekki nafn konungsins, heldur nafnið á embætti hans. Að sögn Örnólfs var það vitað þegar fréttatilkynningin var skrifuð.

„Við höfðum samráð við Sendiráð Malasíu í Stokkhólmi sem er í fyrirsvari gagnvart Íslandi og fengum frá þeim leiðbeiningar um hvernig rétt væri að ávarpa konunginn.“

„Ólafur sendir samúðarkveðjur“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert