Óku frá Sjanghæ til Patreksfjarðar

Nýsjálensku hjónin Eb og Jitske Wykstra renndu í hlað hjá upplýsingamiðstöð ferðamála á Patreksfirði á dögunum og brá starfsmönnum þá nokkuð í brún. Þau sögðust nefnilega hafa komið akandi frá heimalandinu á eigin bíl, og er það ekki á hverjum degi sem slíka gesti ber að garði.

Greint er frá ferðalagi hjónanna fréttavef Bæjarins besta. Þar segir að Eb og Jitske séu bæði ellilífeyrisþegar en láti aldurinn ekki stoppa sig við að láta drauma sína rætast. „Ferð þeirra hófst fyrir mörgum mánuðum er þau fluttu bíl sinn með skipi frá Nýja-Sjálandi til Sjanghæ í Kína og þar hófst aksturinn í byrjun apríl. Um var að ræða hópferð bíla frá Sjanghæ til London. Þess má geta að það tók þau 22 daga að keyra í gegnum Rússland.

Eb og Jitske höfðu ekki fengið nóg af akstrinum þegar til London var komið og héldu þau til Hirtshals í Danmörku og tóku sér far með Norrænu til Seyðisfjarðar,“ segir á Bæjarins besta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert