Smábatterí geta valdið mikilli hættu

Smábatterí eftir aðeins tvær klukkustundir.
Smábatterí eftir aðeins tvær klukkustundir.

Neytendastofa hvetur fólk til að ganga úr skugga um að hlutir með litlum batteríum séu á öruggum stöðum. Þó svo ekki fari mikið fyrir smábatteríum geti hættan af þeim verið mikil. Til að mynda getur slíkt batterí valdið barni sem gleypir það alvarlegum bruna á innan við tveimur klukkustundum.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu. Þar segir að flest heimili eigi raftæki sem innihaldi smábatterí. Rafhlöður sem þessar sé meðal annars að finna í mörgum leikföngum sem gefi frá sér hljóð, í hljóðbókum fyrir börn, lyklakippum, heyrnatækjum, úrum, fjarstýringum fyrir bæði sjónvörp, DVD-tækjum og hljómflutningsgræjum, eldhús- og baðvogum, kertum sem ekki eru með lifandi ljósi, auk annarra lítilla raftækja.

„Þessi raftæki eiga það sameiginlegt að tiltölulega auðvelt er að opna lokið þar sem þau eru fest. Ganga þarf úr skugga um að rafhlöðuhólfið sé öruggt og tryggja að börn hafi ekki aðgang að þeim ef hólfið þar sem rafhlaðan er geymd er ekki öruggt. Þá þarf að gæta þess að auka-rafhlöður séu geymdar þar sem börn ná ekki til og að notuðum rafhlöðum sé fargað tafarlaust.

Ef barn gleypir smábatterí eða ef þig grunar að það hafi gert slíkt, þarf að leita til læknis tafarlaust.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert