Vegagerðin segir Kjalveg varla ökufæran

Á Kjalvegi.
Á Kjalvegi. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Vegagerðin varar ökumenn við að sunnanverður Kjalvegur er í mjög slæmu ástandi og varla ökufær. Þá er einnig varað við viðvarandi jarðsigi á Siglufjarðarvegi að undanförnu og að skvompur eða brot geti myndast skyndilega. Því eru vegfarendur beðnir að sýna sérstaka aðgát.

Unnið er við malbikun í dag á Suðurlandsvegi til austurs (frárein og aðrein) upp í Árbæ frá kl. 15:30 til 21:00. Gert er ráð fyrir að slaufum verði lokað meðan á framkvæmdum stendur. Hjáleiðar verða merktar og eru vegfarendur beðnir að virða merkingar á vinnusvæðinu og sýna aðgát.

Unnið er við fræsingu og malbikun á Hafnarfjarðarvegi  í dag og verður vinstri akrein lokuð frá kl 04:00 til 16:00 við gatnamót Vífilstaðavegar og Hafnarfjarðavegar og undir brú á Arnarnesvegi. Hjáleiðar verða merktar og eru vegfarendur beðnir að virða merkingar á vinnusvæðinu og sýna aðgát.

Verið er að setja upp gönguljós á gatnamótum Fjarðarhrauns og Hjallahrauns í Hafnarfirði og eru vegfarendur beðnir að virða merkingar og sýna aðgát.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert