Samfylkingin fordæmir aðgerðir Ísraelsstjórnar

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingflokkur Samfylkingarinnar fordæmir aðgerðir Ísraelsstjórnar á Gazasvæðinu síðustu vikur. Þá hefur flokkurinn lagt til að íslenska ríkisstjórnin grípi til tiltekinna aðgerða og verður tillagan tekin upp á fundi utanríkismálanefndar næstkomandi fimmtudag.

Í tilkynningu frá flokknum segir að Ísrael hafi, eins og önnur ríki, rétt til sjálfsvarnar en sá réttur geti aldrei réttlætt árásir á borgaraleg skotmörk og almenna borgara. „Grundvallarkrafa er að vopnahlé verði strax að veruleika og Ísraelsmenn samþykki friðsamlega lausn sem skapi tilverugrundvöll fyrir sjálfstætt ríki Palestínumanna. Forsenda varanlegs friðar er að ríkisstjórn Ísraels láti af stöðugu landráni á Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem. 

Aðgerðir Ísraelsstjórnar nú fela í sér enn einn kaflann í langri ofbeldissögu Ísraels gagnvart palestínsku þjóðinni. Ítrekað hefur verið kallað eftir friðsamlegri lausn, en Ísraelsstjórn virðist einbeitt í að virða alþjóðalög og gerða samninga að vettugi.

Því er óhjákvæmilegt að Ísland beiti sér með ákveðnari hætti á alþjóðavettvangi gagnvart Ísrael en áður.

Þingflokkur Samfylkingarinnar leggur sérstaka áherslu á að Alþingi samþykkti án mótatkvæða tillögu síðustu ríkisstjórnar um að viðurkenna formlega fullveldi Palestínu miðað við landamærin 1967. Í því ljósi blasir við að af hálfu Íslands verði gripið til eftirfarandi aðgerða:

  • Íslenska ríkisstjórnin hafi frumkvæði að því að leggja til viðskiptaþvinganir gagnvart Ísrael á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sambærilegar þeim sem alþjóðasamfélagið beitti til að brjóta aðskilnaðarstefnu S-Afríku á bak aftur á sínum tíma. Slíkt bann taki að minnsta kosti í upphafi til vopnasölu. Leitað verði hófanna með samstöðu um víðtækari viðskiptaþvinganir.
  • Ríkisstjórnin óski opinberlega eftir því að Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna rannsaki hvort aðgerðir Ísraelshers á Gazasvæðinu feli í sér brot á alþjóðalögum og hvort þær falli undir stríðsglæpi.
  • Ríkisstjórnin kanni án tafar hvort unnt sé að ná samstöðu meðal helstu samstarfslanda Íslands um að Ísrael verði kynnt að yfir vofi slit á stjórnmálasambandi verði hernaðaraðgerðum þeirra á Gaza ekki hætt þegar í stað.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert