Ísland er 26. viðkomustaður Globe-leikhússins

Leikhópur Globe-leikhússins í London er um þessar mundir í alþjóðlegri leikför og sýnir af því tilefni leikverkið Hamlet í Hörpu í kvöld. Ísland er land númer 26 í tveggja ára ferð leikhópsins til allra landa heims.

Matthew Romain, leikari með hópnum sem mbl.is náði tali af, fer með fjölda hlutverka, þar sem hópurinn skiptir reglulega um hlutverk. Í kvöld leikur Matthew til að mynda þá Fortinbras Noregsprins, sem Matthew túlkar sem eins konar spegilmynd Hamlets, Marsellus vaktmann, Ósrek og Rósinkrans, vin Hamlets.

„Það erfiða er ekki að muna sínar eigin línur, heldur að klára ekki línur þess sem leikur á móti manni. Það er svolítið fyndið,“ segir hann aðspurður hvort hinn miklil fjöldi leiklína vefjist ekki fyrir leikendum. 

Á öllum viðkomustöðum verður verkið Hamlet sett á fjalirnar enda eitt þekktasta verk leikskáldsins. „Okkur langaði að taka leikinn til allra landa heims, sem er mjög í anda Shakespeares, því hans hópur átti það til að fara í leikferðir um alla Evrópu. Ástæðan fyrir því að Hamlet varð fyrir valinu er að það er eitt þekktasta verkið en líka eitt mest alhliða og fjölhæfasta verkið.“

Þannig sé tekist á við þemu sem allir kannist við og skilji. „Verkið á enn erindi til fólks í dag. Sama hvers þjóðernis þú ert og hversu miklum skilningi þú býrð yfir á ensku má vænta mikils af verkinu.“

Útfærsla Globe-leikhópsins er fremur hefðbundin og á ekki að gerast á neinum ákveðnum tíma. „Þessi uppfærsla reynir að halda hlutunum einföldum. Globe er mjög gott að því leyti að það lætur söguna tala fyrir sig sjálfa.“

Í anda Globe-leikhússins er engin tónlist spiluð önnur en sú sem leikarar framleiða sjálfir, en að sögn Matthews kunna flestir í leikhópnum á nokkur hljóðfæri og er mikið um tónlist í verkinu.

Sýningin hefst klukkan 19:30 og er miðasala í fullum gangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert