Bílar rispaðir með hvössu áhaldi

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í nótt tilkynnt um skemmdir á níu bílum í austurhluta borgarinnar. Virtist sem gengið hefði verið á röðina og þeir rispaðir með hvössu áhaldi. Ekki er vitað hver eða hverjir voru þar að verki, en málið er í rannsókn að sögn lögreglu.

Um svipað leyti, eða klukkan eitt í nótt, var tilkynnt um mann á tvítugsaldri sem gekk á milli bíla og reyndi að komast inn í þá. Þetta var hjá lögreglustöð 2, sem annast Garðabæ og Hafnarfjörð. Maðurinn var handtekinn þar sem hann var kominn inn í bifreiðina, en hann gat ekki gert grein fyrir af hverju hann væri þangað kominn.

Maðurinn var í annarlegu ástandi og því vistaður í fangageymslu í nótt, þangað til hægt verður að taka af honum skýrslu.

Á fimmta tímanum í nótt var svo tilkynnt innbrot í sjoppu í Kópavogi. Ekki er vitað hvað var tekið en málið er í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert