Hraunið heillaði dómnefndina

Mynd/Magma Iceland

„Við erum sex nýútskrifaðir nemendur úr Verzlunarskólanum sem stöndum að þessu. Fimm okkar fóru út til Eistlands og þar vorum við að sigra í lokakeppni Junior Achievement með fyrirtækið okkar,“ segir Sigurður Kristinsson í liðinu Magma Iceland, en fyrirtækið framleiðir minjagrip, skotglös klædd með hrauni úr svörtum steinleir. 

„Við sigruðum fyrst keppnina heima á Íslandi þar sem 38 fyrirtæki frá mörgum framhaldsskólum kepptu um að fá að komast hingað út. Hér úti í Eistlandi eru síðan 38 lið frá jafnmörgum löndum. Keppnin er gríðarlega stór enda eru um 22 þúsund nemendur sem taka þátt á grunnstigi hennar,“ segir Sigurður. Með Sigurði í liðinu eru þau Andri Þór Atlason, Davíð Erik Mollberg, Davíð Georg Gunnarsson, Arna Margrét Ægisdóttir og Karólína Vilborg Torfadóttir. 

Komu vörunni í sölu á þremur vikum

Úti í Eistlandi snerist keppnin að mestu leyti um að selja hugmyndina sína. Dómnefndin samanstendur af forstjórum og framkvæmdastjórum margra af stærstu fyrirtækjum Evrópu. Að sögn Sigurðar hreif það dómnefndina mest hversu lítinn tíma hópurinn hafði haft til þess að koma vörunni í framleiðslu. „Á meðan mörg hinna fyrirtækjanna höfðu allt að ári í að koma vörunni sinni í framleiðslu höfðum við bara átta vikur. Nema hvað að eftir fimm vikur af vinnu komumst við að því að hugmyndin okkar var of dýr, svo við byrjuðum á þessari hugmynd og komum henni í framleiðslu á þremur vikum. Það vó þungt hjá dómnefndinni.“

Dómnefndin hreifst einnig af dreifingaraðferð fyrirtækisins. „Við dreifum henni með því að selja hana sem hágæða minjagrip í minjagripaverslunum og treystum síðan á ferðamenn að bera orðið með sér. Síðan sendum við út minjagripi til þeirra sem panta hann á netinu,“ segir Sigurður.

Hraunið góð landkynning

Dagskráin úti í Eistlandi var þétt skipuð. „Í byrjun júní skiluðum við skýrslu um fyrirtækið með öllu sem við höfðum gert, fjármálin og áætlun fyrir framtíðina. Síðan þurftum við að kynna vöruna á sviði í Óperuhúsinu í Tallín sem tekur um 900 manns,“ segir Sigurður. 

Við tók svo einkafundur með dómnefndinni. „Þar krufðum við hugmyndina og þeir spurðu okkur spjörunum úr.“

Einn liðurinn í dagskránni var að kynna vöruna og selja til innfæddra í verslunarmiðstöð í Tallín. „Það gekk vel, en var samt ansi erfitt þar sem við erum með frekar dýra vöru.“ 

„Þetta nýttist líka vel sem landkynning þar sem við fengum auglýsingavarning frá Íslandsstofu og gátum þannig kynnt land og þjóð í leiðinni. Það virkaði rosalega vel og hafði mikil áhrif á söluna,“ segir Sigurður en liðið tók svo að lokum við verðlaunum úr hendi forsætisráðherra Eistlands. 

Sjá Facebooksíðu Magma Iceland

Skotglasið sem fyrirtækið framleiðir er klætt hrauni.
Skotglasið sem fyrirtækið framleiðir er klætt hrauni. Mynd/Magma Iceland
Sexmenningarnir að baki fyrirtækinu Magma
Sexmenningarnir að baki fyrirtækinu Magma Mynd/Magma Iceland
Hópurinn djúpt sokkinn í undirbúning fyrir keppnina.
Hópurinn djúpt sokkinn í undirbúning fyrir keppnina. Mynd/Magma Iceland
Fimm úr hópnum fóru til Eistlands á alþjóðlegu keppnina.
Fimm úr hópnum fóru til Eistlands á alþjóðlegu keppnina. Mynd/Magma Iceland
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert