Sólarglenna í sjósundsmóti

Keppendur gáfu sig alla fram.
Keppendur gáfu sig alla fram. Árni Sæberg

„Miðað við hvernig veðrið er búið að vera vorum við hrædd við að það myndi drepa daginn en það kom þessi svaka sólarglenna rétt fyrir mót og var allan tímann á meðan á mótinu stóð,“ segir Benedikt Hjartarson, skipuleggjandi Íslandsmótsins í sjósundi sem haldið var í í kvöld.

Mótið var haldið í Nauthólsvík og keppt var í þremur vegalengdum. Eins kílómetra, þriggja kílómetra og svo fimm kílómetra sundi, en hið síðastnefnda var nýjung í ár. Þá var flokkunum einnig skipt eftir því hvort að sundmenn voru klæddir í sundgalla eða ekki.

Í eins kílómetra sundi án galla kom Hafþór Jón Sigurðsson fyrstur í mark á tímanum 13 mínútum og 43 sekúndum. Í flokki gallasundmanna var nafni hans Hafþór Rafn Benediktsson fyrstur á tímanum 17 mínútum og 47 sekúndum.

Í þriggja kílómetra flokki án galla var Bára Kristín Björgvinsdóttir sneggst á 44 mínútum og 57 sekúndum. Íklæddur galla kom Torben Gregersen fyrstur í mark á 47 mínútum og 38 sekúndum.

Í fimm kílómetra flokki var einungis synt í galla og þar var Hálfdán Örnólfsson fyrstur, en hann synti á einni klukkustund, 26 mínútum og 21 sekúndu. 

„Þetta er svolítið veðurtengd íþrótt þó það skipti engu máli þegar við erum komin ofaní. Þetta hryllir okkur svolítið þegar það blæs vel. Það blotnar enginn meira þótt það rigni, segir Benedikt. 

Hann segir að heiti potturinn og gufan í Nauthólsvíkinni hafi verið þétt setin eftir keppni. „Það eru kjöraðstæður til þess að hita sit upp eftir sundið. Svoleiðis aðstæður finnast ekki annars staðar, ég þekki það hvergi annars staðar þessa aðstöðu að geta hlýjað sér upp eftir svona volk og geta stokkið í heitan pott eða gufu. Venjulega þarf maður bara að klæða sig í fjörunni og hlýja sér sjálfur,“ segir Benedikt.

Þátttakan í sundinu var góð.
Þátttakan í sundinu var góð. Árni Sæberg
Keppendur stíga til sjávar.
Keppendur stíga til sjávar. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert