Hanna varning fyrir Druslugönguna

Gréta Þorkelsdóttir og Helga Dögg.
Gréta Þorkelsdóttir og Helga Dögg. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er mjög gaman að taka þátt í svona verkefni sem fer beint út í samfélagið,“ segir Helga Dögg Ólafsdóttir, nemi í grafískri hönnun í Listaháskólanum, en hún og bekkjarsystkini hennar, Gréta Þorkelsdóttir og Steinarr Ingólfsson, hönnuðu allt auglýsingaefni og varning fyrir Druslugönguna í ár.

Druslugangan, sem er vettvangur fólks til að standa saman og taka afstöðu með þolendum kynferðisofbeldis gegn gerendum, verður farin í fjórða skiptiá morgun, laugardag, 26. júlí. Gangan hefst við Hallgrímskirkju klukkan 14.

Unnu sjálfboðavinnu

Þau Helga, Gréta og Steinarr hönnuðu og útbjuggu 150 plaköt sem þau silkiþrykktu hvert fyrir sig. Auk þess hönnuðu þau boli, taupoka og svokölluð tyggjótattú í nafni göngunnar. Mikil vinna fór í verkið, en hana unnu þau launalaust fyrir málstaðinn. „Við erum búin að vera í svona mánuð að vinna þetta í heildina,“ segir Helga, en öll eru þau í fullu starfi á öðrum stöðum. Hugmyndavinnuna unnu þau heima hjá Helgu að miklu leyti en plakötin útbjuggu þau í vinnuaðstöðu á Grettisgötu. „Kristján Freyr Einarsson var mjög hjálpsamur og lánaði okkur vinnuaðstöðuna sína svo við gátum unnið plakötin þar,“ segir Helga.

Plakötunum hefur nú verið komið fyrir á víð og dreif um borgina, en einnig má sjá hönnun þeirra prýða um 100 strætóskýli í bænum.

Aðspurð segist Helga hafa haft samband við Maríu Lilju Þrastar-dóttur, upphafskonu Druslugöngunnar á Íslandi, að fyrra bragði og beðið um að fá að vera með. „Ég hafði samband við hana í maí og sagðist vera meira en tilbúin að hjálpa ef það væri eitthvað sem ég gæti gert. Hún svaraði mér mánuði seinna og sagðist ætla að búa til skapandi hóp sem ég gæti verið í.“ Helga hafði í kjölfarið samband við þau Grétu og Steinarr og fékk þau í lið með sér. „Mér finnst ótrúlega gaman að geta unnið fyrir Druslugönguna og það er mjög stórt að fá að sjá um allt útlitið,“ segir hún.

Varningurinn verður til sölu í sjálfri göngunni, en einnig verður hægt að fjárfesta í honum á bjórkvöldi Druslugöngunnar sem fer fram í kvöld kl. 20.00 á skemmtistaðnum Brikk. Þar mun fara fram skiltagerð Druslugöngunnar og auk þess verður lagið D.R.U.S.L.A. frumflutt, en það er samstarfsverkefni Reykjavíkurdætra, Ásdísar Maríu og Halldórs Eldjárn og var samið sérstaklega fyrir gönguna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert