„Myndarlegur“ þjófur stal ísbjarnarskinni

Ísbjarnarskinn - Hinn grunaði braut skinnið saman og kom því …
Ísbjarnarskinn - Hinn grunaði braut skinnið saman og kom því fyrir í versluninni í dulargervi mögulegs kaupenda. Daginn eftir var það horfið. Verslunin The Viking

Enn hefur ekkert spurst til manns sem stal ísbjarnarskinni úr verslun á Laugavegi um síðustu helgi. Þjófnaðurinn var vel undirbúinn, að sögn verslunarstjórans, en skinnið verðlagði hann á 1,2 milljónir króna.

„Á laugardagskvöldi kemur maðurinn í búðina til mín, klæddur í ljósbrúnan flauelsjakka, brúnar buxur og brúna skó og mjög myndarlegur,“ segir Guðmundur Sigurðsson, verslunarstjóri The Viking, en manninn segir hann af asísku bergi brotinn. Hann hafi talað góða ensku og hrafl í íslensku. Þá hafi hann verið hávaxinn, um 1,90 metrar á hæð.

„Hann sýndi skinninu mikinn áhuga, bar sig vel og borginmannlega og sagðist vilja kaupa skinnið af mér,“ segir Guðmundur. „Við náðum samkomulagi um verð, 1,1 milljónir króna staðgreiddar, og hann sagðist ætla að hitta mig klukkan tíu morguninn eftir.“

„Plataði mig gjörsamlega uppúr skónum“

Skinnið segir Guðmundur fallegt og vel farið þrátt fyrir aldur. „Áður en hann fór úr versluninni braut hann skinnið saman, setti það í ákveðið horn í búðinni og breiddi hreindýraskinn yfir það. Ég mæti klukkan tíu daginn eftir, hreindýraskinnið sé ég að er á sínum stað en enginn kemur að hitta mig.“

Starfsmaður sem opnaði svo verslunina á sunnudag tók hreindýraskinnið burt og var þá ekkert ísbjarnarskinn að finna undir því. „Hann hafði greinilega undirbúið þennan þjófnað.“

Hinn meinti þjófur talaði lýtalausa ensku, að sögn Guðmundar, auk hrafls í íslensku. „Hann var mjög trúverðugur að öllu leyti og bar sig eins og hann væri mjög efnaður. Auðvitað var það svoleiðis maður sem við áttum von á að keypti skinnið. Hann plataði mig svona gjörsamlega uppúr skónum.“

Þegar Guðmundur mætti til vinnu mánudaginn eftir fór málið til lögreglu, en Guðmundur hefur takmarkaða trú á að skinnið finnist. „Við erum með allar klær úti. Það er óþolandi að þurfa að búa við þetta.“

Eigandi skinnsins, Skúli J. Björnsson, telur erfitt að leggja mat á verðmæti þess, en það var í umboðssölu í verslun The Viking. Björninn hafi verið veiddur áður en ísbirnir voru friðaðir. „Þeir sem vilja eignast svona skinn þurfa að hafa mikið fyrir því,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Guðmundur og Skúli telja að skinnið gæti selst á fimm milljónir króna á erlendum markaði.

Að sögn lögreglu er málið enn í rannsókn. „Við reynum eftir fremsta megni að komast að hinu sanna,“ sagði Sigurbjörn S. Jónsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Hverfisgötu. Engar myndir náðust af hinum meinta þjófi svo lögregla viti af. 

Verslunin heitir veglegum fundarlaunum fyrir þann sem finnur skinnið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert