„Helgin er búin að vera mjög fín. Fjöldinn fór upp í 5-600 manns þegar mest lét,“ segir Magnea Dröfn Hlynsdóttir, landvörður á Norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs um tjaldsvæðið í Ásbyrgi en gott veður hefur verið á svæðinu um helgina.
„Á góðum degi fer fjöldinn jafnvel upp í þúsund manns, eins og var síðustu helgi. Veðrið um helgina var mjög gott. Í gær var léttskýjað og mjög hlýtt og gott veður og nú er 15 stiga hiti og sól á köflum.“
Að sögn Magneu eru flestir gestirnir með einhvers konar tjaldvagna. „Íslendingar eru mest með tjaldvagna, fellihýsi eða hjólhýsi. Mér finnst það samt færast í aukana að þeir mæti með stór braggatjöld, eða stærri fjölskyldutjöld með fleiri en einu rými.“
Á tjaldsvæðum á Suðurlandi var minna að gera nú um helgina. Veðrið var ágætt en mikil væta hefur verið undanfarið og jörðin því blaut og svæðið viðkvæmt. Svo virðist sem þeir sem hafi ætlað í útilegu hafi lagt í lengra ferðalag til þess að elta sólina á Norður- og Austurlandi.