Ferðamenn þurfa ekkert að óttast

Læknir klæðir sig í hlífðarfatnað til þess að koma í …
Læknir klæðir sig í hlífðarfatnað til þess að koma í veg fyrir smit ebóluveirunnar. AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) setur engar takmarkanir á ferðalög til Vestur-Afríku að svo stöddu. Stofnunin fylgist náið með útbreiðslu ebólu-faraldursins um heimsálfuna, en faraldurinn er talinn sá versti í sögunni.

Að minnsta kosti 660 manns hafa dáið úr ebólu í fjórum Afríkuríkjum að undanförnu, en samkvæmt WHO er afar ólíklegt að hinn almenni ferðamaður smitist.

Að sögn Guðrúnar Sigmundsdóttur, yfirlæknis sóttvarna hjá Landlæknisembættinu, smitast ebóla þegar menn komast í beina snertingu við líkamsvessa þeirra sem eru veikir eða látnir úr sjúkdómnum. „Þetta hafa hingað til aðallega verið þeir sem annast veika þannig að hinn venjulegi ferðamaður er talinn vera í mjög lítilli hættu fyrir þetta smit,“ segir Guðrún.

Landlæknisembættið er tengiliður Íslands við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina sem gerir áhættumat fyrir útbreiðslu faraldra eins og ebólu. Stofnunin sendir í kjölfarið upplýsingar til annarra þjóða sem bregðast við í samræmdum aðgerðum.

„Við bregðumst strax við. Málið með ebóluna er að hún er til komin vegna bresta í sýkingarvörnum í þessum löndum. Það er sannarlega erfitt að koma upplýsingum til fólks og breyta hefðum þarna, og aðgangur að heilbrigðisþjónustu getur verið slæmur og þekking er ekki næg. Í hinum vestræna heimi tel ég mjög ólíklegt að svona smit nái að breiðast út í sama mæli vegna aðgerða sem hægt er að beita til að draga úr líkum á smiti manna á milli,“ segir Guðrún.

„Aðalmálið er að það er hægt að stöðva þetta smit með réttum aðgerðum. Það er erfiðara með inflúensuna, sem er öðruvísi veira, smitast öðruvísi og mun meira.“

Níu af hverjum tíu sem smitast af ebóluveirunni látast í kjölfarið. Á laugardaginn lést fyrsti sjúklingurinn úr ebólu í Freetown, höfuðborg Síerra Leóne, en einnig hafa tveir Bandaríkjamenn smitast af vírusnum.

 Frétt mbl.is: Versti ebólu-faraldur allra tíma

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert