Settist klofvega yfir óvígan og kýldi

Höfnin í Grundarfirði.
Höfnin í Grundarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Á myndbandi sem tekið var með eftirlitsmyndavél við höfnina í Grundarfirði sést þegar árásarmennirnir tveir eltu fórnarlambið eftir bryggjunni og veittust að honum með höggum.

Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldskúrskurði Hæstaréttar, en framlenging gæsluvarðhalds yfir mönnunum var staðfest í Hæstarétti í dag. Vitnisburður annars manns, sem vann við lyftara á hafnarsvæðinu, staðfestir þetta. 

Sést þar meðal annars þegar annar árásarmannanna veitti fórnarlambinu högg sem leiddi til þess að maðurinn féll á bryggjuna. Hinn árásarmaðurinn settist þá klofvega yfir þann sem varð fyrir högginu, þar sem hann lá óvígur og hreyfingarlaus, og veitti honum tvö högg með hægri hendi.

Þeir hættu ekki fyrr en þriðji aðili kom frá bátnum, sem þeir höfðu komið frá, og kallaði mennina til sín. Þegar lögregla kom á vettvang var stór blóðpollur á jörðinni þar sem höfuð mannsins hafði legið.

Manninum er enn haldið sofandi á gjörgæsludeild Landspítalans en samkvæmt upplýsingum læknis er hann með alvarlega höfuðáverka og lífshættulega slasaður.

Leitaði eftir átökum við skipverja á veitingastaðnum

Atburðarás kvöldsins sem árásin varð er rakin í úrskurði Hæstaréttar. Þar segir að aðfaranótt 17. júlí hafi fiskiskip komið til hafnar í Grundarfirði til löndunar. Hluti áhafnar skipsins, meðal annars árásarmennirnir, fór á veitingastað í bænum.

Þar var fyrir sá sem varð fyrir árásinni, en hann var ekki meðal skipverja. Í framburði nokkurra vitna sem voru á veitingastaðnum kemur fram að maðurinn hafi verið ölvaður og leitað árangurslaust eftir átökum við meðlimi áhafnarinnar, en þess á milli hafi hann spjallað við þá. Að öðru leyti var hann ekki til sérstakra vandræða.

Þegar veitingastaðnum var lokað hélt áhöfnin í tveimur hópum til skips og blandaðist sá sem varð fyrir árásinni í síðari hópinn. Hann vildi komast um borð í skipið en var tjáð að það væri einungis opið skipverjum.

Hann sætti sig við það og gekk í átt frá skipinu. Þá fara árásarmennirnir frá borði og ganga á eftir manninum. Hafa þeir ekki gefið haldbæra skýringu á því hvers vegna þeir eltu manninn. Umrætt myndskeið sýnir hvað gerðist í framhaldinu. 

Annar árásarmannanna er Íslendingur en hinn er af erlendu bergi brotinn. Þeir eru úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna.

Í fyrra skiptið sem gæsluvarðhald var framlengt yfir mönnunum, þann 22. júlí, var það hins vegar gert á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála. Það ákvæði er notað ef ætla má að sakborningur muni torvelda rannsókn, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert