easyJet ekki til Akureyrar

easyJet.
easyJet. AFP

Talskona flugfélagsins easyJet, upplýsingafulltrúi Norwegian og talsmenn þýsku félaganna Airberlin og German Wings segja engin áform uppi um að hefja flug til Akureyrar á þessari stundu. Framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands sagði hins vegar í síðustu viku að easyJet og Norwegian hefðu sýnt áhuga.

Frá þessu er greint á ferðavefnum Túristi.is. Þar segir að í síðustu viku hafi verið haft eftir Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands, í Vikudegi að easyJet og Norwegian væru meðal þeirra flugfélaga sem hafi sýnt flugi til Akureyrar áhuga og einnig væri flugvöllurinn inn í myndinni hjá þýskum lággjaldaflugfélögum.

„Anna Knowles, talskona easyJet, segir við Túrista að engin áform séu uppi um að hefja flug til Akureyrar á þessari stundu og upplýsingafulltrúi Norwegian segist ekki hafa neinar upplýsingar um flug þangað. Talsmenn þýsku félaganna Airberlin og German Wings taka í svipaðan streng í sínum svörum,“ segir í frétt Túrista.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert